135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

reglugerð um menntun tónlistarkennara.

[10:57]
Hlusta

Kjartan Eggertsson (Fl):

Virðulegur forseti. Fyrirspurn mín er til hæstv. menntamálaráðherra og hljóðar svo: Áætlar hæstv. menntamálaráðherra samhliða setningu laga um framhaldsnám tónlistarnema að setja reglugerð um menntun tónlistarkennara eða gæti hann hugsað sér að slíkt yrði gert?

Ég vil nota tækifærið og lýsa yfir ánægju minni með fyrirætlan hæstv. menntamálaráðherra um setningu laga um framhaldsnám í tónlist. Ég veit að sveitarfélögin, tónlistarskólarnir, kennarar tónlistarskólanna og nemendur bíða í ofvæni eftir þessum lögum sem munu leysa margan vanda við menntun tónlistarnema á framhaldsstigi. Vonast er til að sveitarfélögin noti tækifærið í kjölfar setningar laganna og endurskoði niðurgreiðslu námskostnaðar annarra tónlistarnema til jöfnunar, þannig að allir tónlistarnemendur í sambærilegu námi njóti sömu niðurgreiðslna og sé ekki mismunað til náms.

Í lögum um tónlistarskóla frá 1975 var ákvæði um að menntamálaráðherra setti reglugerð um réttindi og skyldur tónlistarkennara. Sú reglugerð var aldrei sett og ákvæðið var tekið út úr lögunum árið 1987. Tónlistarkennarar eru fjölmenn og mikilvæg stétt en þeir hafa búið við það alla tíð að engin opinber námskrá er til um tónlistarkennaramenntun. Ýmsir tónlistarskóla hafa í áranna rás rekið kennaradeildir og þaðan hafa menn útskrifast með misjafnlega mikla menntun.

Menntun tónlistarkennara þarf að samræma. Mjög margir tónlistarkennarar hafa mikla tónlistarmenntun en þó ekki formlegt tónlistarkennarapróf og vandi þeirra er að þeir geta hvergi sótt opinbera viðurkenningu á menntun sinni. Einnig eru nýnemar í tónlistarkennaranámi óöruggir um réttindi sín að loknu námi. Með setningu reglugerðar um tónlistarnám eða útgáfu á opinberri námskrá til tónlistarkennaraprófs mætti færa málefni tónlistarkennslunnar í landinu til betra horfs.