135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

framkvæmd náttúruverndaráætlunar.

[11:03]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Því er til að svara að núgildandi náttúruverndaráætlun tekur til fleiri verkefna en þeirra 14 svæða sem hv. þingmaður nefnir. Það er alveg rétt að það hefur dregist mjög að vinna að friðlýsingu þessara svæða. Það er unnið að friðlýsingu nokkurra þeirra og þar hefði þurft að standa að málum með öðrum hætti en gert var.

Við skulum hins vegar ekki gleyma því að núgildandi náttúruverndaráætlun mælir fyrir um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem er án nokkurs efa langstærsta náttúruverndarverkefni sem íslensk stjórnvöld og íslensk þjóð hafa ráðist í. Sá þjóðgarður verður stofnaður núna í júní og unnið hefur verið sleitulaust í heilt ár að stofnun hans samkvæmt lögum um þjóðgarðinn. Það eru líka aðrir hlutir í þessari náttúruverndaráætlun sem unnið er að, svo sem verndun plantna og annað slíkt.

Jafnframt er verið að endurskoða og fara í gegnum núgildandi náttúruverndaráætlun og undirbúa gerð nýrrar áætlunar fyrir árin 2009–2012 í ráðuneytinu. Hún verður lögð hér fram í haust og ég hef áttað mig á í ljósi reynslunnar af núgildandi náttúruverndaráætlun að það er ekki nóg að lista upp svæðin heldur þarf að vera með friðlýsingu svæðanna ákveðið markmið, innihald, verkfæri og síðast en ekki síst fjármunir til að stuðla að og standa að friðlýsingu þannig að hún standi undir nafni. Þess vegna hef ég nú varið ásamt starfshópi um nýja náttúruverndaráætlun umtalsverðum tíma í að fara ofan í innihaldið, verklagið og peningana sem þurfa að fylgja til að náttúruverndaráætlun geti staðið undir nafni.