135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

framkvæmd náttúruverndaráætlunar.

[11:05]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég dreg ekki úr mikilvægi þess að Vatnajökulsþjóðgarður skuli vera að líta dagsins ljós. Það er alveg rétt sem hæstv. umhverfisráðherra segir, að því máli hefur verið unnið og því ber auðvitað að fagna. Eftir standa engu að síður svæði eins og Álftanes, Akrar, Löngufjörur, Álftanes, Skerjafjörður, Austara-Eylendið, Látrabjarg, Veiðisandur, Vestmannaeyjar, Öxarfjörður, Látraströnd, Náttfaravíkur, Njarðvík, Loðmundarfjörður, Geysir í Haukadal, Reykjanes, Eldvörp, Hafnarberg, Vatnshornsskógur í Skorradal. Öll þessi svæði verðskulda vernd og Alþingi Íslendinga er búið að samþykkja að þessi svæði eigi að vernda.

Hæstv. umhverfisráðherra hefur rétt fyrir sér í að það þurfi að tryggja fjármuni. Og hvað gerði Samfylkingin í því að tryggja fjármuni til náttúruverndar í síðustu fjárlögum, fyrstu fjárlögum þessarar ríkisstjórnar þar sem Samfylkingin hafði möguleika á að láta til sín taka? Hún gerði það ekki. Í stað þess grautar hún saman í samstarfi við hæstv. forsætisráðherra Geir Haarde orku- og umhverfismálum og talar alltaf um það í sama orðinu. Nú á að gera rammaáætlun um nýtingu og verndun náttúrusvæða í stað þess að hafa hreina (Forseti hringir.) og klára náttúruverndaráætlun annars vegar og nýtingaráætlun hins vegar eins og var (Forseti hringir.) í tíð fyrri ríkisstjórnar.