135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum.

[11:21]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks leggur ríka áherslu á öfluga velferðarþjónustu. Stefna hennar er að beita sér fyrir heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða, lækka lyfjaverð, einfalda greiðsluþátttöku hins opinbera, kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna, auka forvarnir, heilsueflingu, geðheilbrigði fyrir börn og beita sér fyrir auknum jöfnuði. Hæstv. heilbrigðisráðherra vinnur ötullega að þessum verkefnum.

Fyrirmyndir að þeim breytingum sem eru í undirbúningi eru sóttar til Norðurlandanna, Norðurlandanna sem eru þekkt um allan heim fyrir góða heilbrigðisþjónustu og öflugasta velferðarkerfi sem til er. Nefndin sem er að fara yfir rekstur Landspítalans skoðaði t.d. þrjú háskólasjúkrahús á Norðurlöndum til að hafa sem fyrirmynd í störfum sínum. Ef ætlunin hefði verið að einkavæða hefði þá ekki verið leitað eitthvað annað? Við erum að horfa til norræna velferðarkerfisins og reynslunnar þar.

Verið að koma á Sjúkratryggingastofnun til að annast kaup og sölu fyrir hið opinbera í heilbrigðisþjónustu að sænskri fyrirmynd. Norðurlöndin hafa fyrir löngu kostnaðargreint öll verk í heilbrigðisþjónustunni. Það er nauðsynlegt til að gera kerfið skilvirkt. Það er í þágu sjúklinga. Það er í þágu skattgreiðenda og það er í þágu allra landsmanna. (ÖJ: Nei.)

Í undirbúningi er nýtt greiðslukerfi í heilbrigðisþjónustunni fyrir almenning sem á að auka jöfnuð og réttlæti. Það kemur í stað núverandi kerfis sem hefur gengið sér til húðar og er bæði óréttlátt og yfirmáta flókið. Í nýja kerfinu verða allir sjúklingar varðir fyrir miklum heilsufarskostnaði. Og skipting kostnaðar milli sjúklinga og hins opinbera er óbreytt, það nefni ég vegna orða hv. þingmanns. (ÖJ: Ekki allra.) Þessar breytingar eru líka sóttar til Norðurlandanna sem hafa búið við það kerfi um árabil og hafa af því góða reynslu.

Í öllum þessum breytingum er það grundvallarmarkmið jafnaðarstefnunnar tryggt að fólki verði ekki mismunað eftir efnahag, búsetu eða stöðu. Og enginn getur greitt sig fram fyrir í röðinni. (Forseti hringir.) Við munum standa vörð um það. Heilbrigðiskerfið okkar verður áfram félagslegt. Það er ekkert að óttast. (ÖJ: Jú. … fólk.)