135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum.

[11:23]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vildi að þau orð sem hér voru látin falla í lokin, að ekkert væri að óttast, væru sönn. En það er nú ekki þannig. Vægt til orða tekið ríkir óöryggi í heilbrigðismálum, fólk er mjög óöruggt um framtíðina. Hvað er verið að bralla? Það er nefnilega verið að bralla ýmislegt sem ekki kom fram í orðum hæstv. ráðherra áðan.

Hann sagði að stjórnarsáttmálinn væri skýr hvað þetta varðar og það eru vissulega þó nokkur orð um heilbrigðismál. Það er hins vegar ekki minnst á heilsugæslu, ekki minnst á hana í stjórnarsáttmálanum. Heilsugæslan hefur að mati okkar framsóknarmanna verið grundvöllur í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Við höfum viljað standa vörð um heilsugæsluna og í þeim stjórnarsáttmála sem við áttum aðild að stóð, með leyfi forseta:

„Efla þarf heilsugæsluna sem hornstein heilbrigðisþjónustunnar í landinu.“

Nú er þetta ekki lengur með. Hvað þýðir þetta ef hæstv. ráðherra vildi gjöra svo vel að útskýra það aðeins fyrir okkur? Ég meira að segja velti fyrir mér hvað eigi að gera eins og í sambandi við heilsugæsluna í Reykjavík? Á að kljúfa hana? Er það eitt af því sem það frumvarp felur í sér sem við höfum ekki rætt enn þá?

En ég lýsi náttúrlega mikilli ánægju með að málshefjandi hér, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, er nú loksins búinn að átta sig á því að málin voru í dálítið góðum höndum hjá Framsóknarflokknum. Það er nefnilega stóra málið. (ÖJ: … er það ekki.) Hann er nú búinn að átta sig á þessu, hv. þingmaður, það var viðhaft félagslegt kerfi og það er þetta félagslega kerfi sem er í hættu vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn fer með heilbrigðismál. Það er stóra málið. Við treystum honum aldrei til að fara með heilbrigðismál í þau 12 ár sem við unnum með honum en það virðist ekki hafa verið erfitt fyrir Samfylkinguna að skrifa undir það.