135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum.

[11:25]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í orðum hæstv. heilbrigðisráðherra og talsmanns Samfylkingarinnar hér kemur fram að menn ætli að standa vörð um réttlátt kerfi og efla þjónustu við sjúklinga í anda velferðarkerfa Norðurlandanna. Ekki leggjumst við gegn því í Frjálslynda flokknum.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að almennt eru Íslendingar sáttir við sitt góða heilbrigðiskerfi og fáa hef ég rætt við sem vilja einkavæða heilbrigðiskerfið í heild sinni. Flestir svara því til að þá vilji þeir frekar greiða hærri skatta til ríkisins en nú er til að tryggja hér gott og mannsæmandi heilbrigðis- og tryggingakerfi. Það eru grundvallaratriði í stefnu Frjálslynda flokksins að allir landsmenn eigi sama rétt til heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag.

Kosti einkaframtaks þarf vissulega að nýta verði því komið við til að fjármunir almennings nýtist sem best. Ríkisvaldið á hins vegar að sjá um fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar í hvaða rekstrarformi sem hún er veitt.

Greiða þarf kostnað sjúklinga bæði til lyfja- og læknisþjónustu og setja skýrar kostnaðarþátttökureglur með hámarksþaki fyrir hvern einstakling. Markmiðið á að vera að allir landsmenn njóti bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni. Heilbrigðiskerfið á að vera félagslegt kerfi með ásættanlegum lágmarksþátttökukostnaði sem allir greiði og kerfið á að ná til allra sjúkdóma fólks óháð líkamshluta, aldri, búsetu eða stöðu í þjóðfélaginu að öðru leyti.