135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum.

[11:37]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni fyrir þeirra framlag. Ég held að kjarninn sé sá að víða í þjóðfélaginu er uppi nokkur ótti um þær breytingar sem áformaðar eru. Þær eiga kannski rót sína að rekja til samþykktar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og það er óskað eftir skýringum á því af hálfu stjórnarliðsins hvað felist í boðuðum breytingum sem endurspeglast í auknum einkarekstri. Það er eðlilegt að fólk sé spurult um þetta efni og órói tengist því.

Það skiptir miklu máli hvernig staðið er að breytingum í heilbrigðiskerfinu. Þær breytingar eru óhjákvæmilegar. Ég vænti þess að allir þingmenn átti sig á því að við getum ekki búið við óbreytt ástand. En það skiptir hins vegar máli hvernig breytingarnar eru gerðar. Ég geri ekki ráð fyrir því að það verði ósátt um breytingu eins og þá sem felst í að bjóða út heilsugæslustöð í Salahverfi í Kópavogi. Sú leið hefur tekist mjög vel. Það má segja að um einkarekstur sé að ræða og engin ósátt er um það meðal landsmanna, að ég hygg. Fleiri dæmi má nefna, t.d. þjónustu öldrunarsjúklinga. Það skiptir máli í þessu hvernig menn ætla að gera hlutina. Það er það sem þarf að fá skýrar fram og ég vonast til þess að þessi umræða hafi skýrt stefnu ríkisstjórnarinnar að þessu leytinu til.

Ég vil segja varðandi ábendingu hv. þm. Ögmundar Jónassonar að við erum ekki ósammála um að núverandi fyrirkomulag er þannig að sjúklingar borga of mikið. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það er ekki raunhæft að ætla að bæta þessum 20 milljörðum kr. yfir á ríkissjóð til viðbótar við þær 100 millj. kr. sem ríkissjóður greiðir í dag. Þess vegna legg ég til að þessum sjúklingahlut verði deilt, ekki bara á þá sem nota kerfið heldur líka hina með sérstöku gjaldi.

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar fyrir þessa umræðu.