135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[11:50]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þessi breytingartillaga er um að greiða skuli orlofslaun af greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Breytingartillagan er flutt samkvæmt óskum og reyndar kröfum frá verkalýðshreyfingunni, frá Alþýðusambandi Íslands, frá BSRB, og ég vil vekja athygli þingheims á því að hún hefur verið flutt áður. Þá voru flutningsmenn tveir, sá sem hér stendur og hæstv. félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir.

Um hana urðu miklar umræður hér í þingsal og ég minnist þess að undir þessa tillögu tóku þingmenn Samfylkingarinnar auk ýmissa annarra hér í þingsalnum.

Þannig er að á almennum vinnumarkaði nýtur fólk þess ekki sem fólk gerir hjá hinu opinbera, hjá ríki og sveitarfélögum. Þar fær fólkið notið sumarfrísins (Forseti hringir.) að loknu fæðingarorlofi. Það á ekki við um fólk á almennum vinnumarkaði þannig að hér er verið að gera tillögu um að fá (Forseti hringir.) úr þessu réttlætismáli bætt.