135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[11:57]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið við atkvæðagreiðslu um þetta frumvarp þá nýtur það víðtæks stuðnings. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði teljum að hér sé verið að stíga ýmis mikilvæg framfaraskref.

Hins vegar veldur það mér mjög miklum vonbrigðum að Samfylkingin skuli við þessa atkvæðagreiðslu fella tillögu um að greidd skuli orlofslaun af greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og blása þannig á kröfur sem komið hafa frá verkalýðshreyfingunni um augljóst réttlætismál.

Hæstv. félagsmálaráðherra sem er mjög félagslega sinnaður stjórnmálamaður, og ég veit að hún hefur barist fyrir þessum málum af einurð, hefur greinilega ekki fengið sínum vilja framgengt í ríkisstjórninni. (Forseti hringir.) Eftir að við verðum vitni að því að Samfylkingin lætur Sjálfstæðisflokkinn valta yfir sig í heilbrigðismálum (Forseti hringir.) og þetta gerist í ofanálag þá spyr ég: Er þessi flokkur úr brjóski en ekki beini?