135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

almannatryggingar.

614. mál
[12:23]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa mælt fyrir þessu mikilvæga frumvarpi sem felur í sér kjarabætur til öryrkja sambærilegar við þær kjarabætur sem aldraðir öðluðust við samþykkt breytinga á lögum um almannatryggingar nú á vorþinginu.

Þetta eru auðvitað kjarabætur fyrir öryrkja sem geta nú aukið tekjur sínar um 100 þúsund krónur án þess að það hafi áhrif á almannatryggingagreiðslurnar. Almannatryggingakerfið hefur verið mjög vinnuletjandi sem hefur haft það í för með sér að margir öryrkjar hafa veigrað sér við að fara út á vinnumarkaðinn. Oft er það svo að fólk sem er við mismunandi góða heilsu fer út á vinnumarkaðinn, vinnur sér inn einhverjar fjárhæðir en missir svo aftur heilsuna. Þá lendir það í endurkröfu og skerðingum hjá Tryggingastofnun.

Ég þekki mjög mörg dæmi um þetta hjá geðsjúkum sem eru hópur sem mikilvægt er að geti verið úti í samfélaginu og haldið vinnu þann tíma sem heilsan leyfir. Þetta er verulega mikilvæg breyting hvað þá varðar sem eru með geðsjúkdóma og auðvitað alla aðra öryrkja. Þetta er hvatning til þátttöku í samfélaginu og dregur úr vinnuletjandi þáttum kerfisins.

Getið var um það í nefndaráliti með breytingum sem gerðar voru í mars að bíða ætti eftir niðurstöðum frá framkvæmdarnefnd forsætisráðherra sem endurskoðar nú örorkumat og fjallar um eflingu starfsendurhæfingar. Nú er ljóst að sú nefnd mun ekki skila á tilsettum tíma. Áætlað er að hún skili niðurstöðum síðla á árinu þannig að það er mikilvægt að þessi bráðabirgðaákvæði komi hér inn í lögin þannig að öryrkjar standi jafnvígir öldruðum, 67 ára til sjötugs, og hafi umrætt 100 þús. kr. frítekjumark á mánuði. Þetta eru 1,2 millj. á ári og er mikilvægt fyrir alla öryrkja, sérstaklega þá sem hafa veigrað sér við að fara út í samfélagið vegna þessara skerðingarákvæða gagnvart atvinnutekjum.

Þetta er mikilvægt, bæði hvað varðar aukin lífsgæði, auknar ráðstöfunartekjur og einnig varðandi endurhæfingu því að atvinnuþátttaka er mjög mikilvæg endurhæfing fyrir stóran hóp öryrkja. Þar langar mig til að nefna aftur geðfatlaða af því ég hef verið að vinna í málefnum þeirra. Þeir hafa fengið mikla endurhæfingu og aukinn bata t.d. með því að fá tækifæri til þess að vera þátttakendur úti á almennum vinnumarkaði. Þetta ákvæði í lögunum er einmitt hvatning til þeirra til að fara og nýta sér slík endurhæfingarúrræði.

Ég fagna þessu því mjög. Það eru margir sem geta hagnast á þessu eins og kemur hér fram í greinargerðinni með frumvarpinu. Annars hefur hæstv. ráðherra farið ágætlega yfir þetta mál og kynnt það þannig að ég ætla ekki að lengja umræðuna um það. Ég fagna því aftur að þarna sé verið að rétta hlut öryrkja hvað þetta varðar.