135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

almannatryggingar.

614. mál
[12:28]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með að þetta mál skuli vera lagt hér fram. Þetta mun bæta kjör örorkulífeyrisþega á almenna vinnumarkaðnum og því fögnum við framsóknarmenn frumvarpinu sem hér hefur verið lagt fram. Þetta mál er hluti af miklu stærra samhengi sem snertir kjör og aðstæður öryrkja og örorkulífeyrisþega.

Ég nefndi það héðan úr ræðustól Alþingis fyrir nokkrum vikum að ég hefði miklar áhyggjur af því að svokölluð örorkumats- og starfsendurhæfingarnefnd forsætisráðherra hefði ekki fundað í allmarga mánuði, nefnd sem hefur það ábyrgðarmikla hlutverk að koma á fót nýskipan í þessum málum til framtíðar litið. Ég reifaði þessar áhyggjur mínar við hæstv. félagsmálaráðherra á sínum tíma og tók hæstv. ráðherra undir að það væri áhyggjuefni að þessi nefnd, sem á að hafa með höndum að koma á nýskipan í þessum málum, hefði ekki komið saman lengi. Ég held því að það sé eðlilegt, í ljósi þess máls sem við ræðum hér, að við innum hæstv. ráðherra eftir því hvort hún hafi einhverjar upplýsingar um það hvort þessi nefnd hafi eitthvað hist að undanförnu og hvernig mál standi. Eins og þau svör voru sem ég fékk hér fyrir nokkru átti þessi nefnd að skila af sér fljótlega. Nú er talað um að hún eigi að skila af sér síðla þessa árs. Ég held því að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að fá upplýsingar um hvernig það starf sem þessi nefnd á að skila af sér er statt, því að þetta snertir hagsmuni öryrkja mjög mikið. Það þarf virkilega að spýta í lófana í því starfi sem þar á að fara fram ef staðan er með þeim hætti sem hún var fyrir nokkrum vikum þegar ég innti hæstv. ráðherra eftir störfum nefndarinnar — nefndin heyrir reyndar undir hæstv. forsætisráðherra en ég hef trú á því að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fylgist mjög vel með því sem þar fer fram.

Hæstv. forseti. Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs aukist um 200 milljónir á þessu ári vegna þessarar lagabreytingar. Gert er ráð fyrir að gildistakan sé 1. júlí, þannig að við getum áætlað að árlegur útgjaldaauki sé tæpar 400 millj. kr. um það bil. Það er mjög gott að öryrkjar skuli fá þær bætur, það var á stefnuskrá allra stjórnmálaflokka í aðdraganda síðustu kosninga að bæta kjör aldraðra og öryrkja og var það forgangsmál hjá flestum þeirra.

Í gær ræddum við hér málefni aldraðra og öryrkja. Þá vitnuðum við, stjórnarandstaðan, í útreikninga Alþýðusambands Íslands á því að vegna breyttra viðmiða vegna kjarasamninga hefðu aldraðir og öryrkjar orðið af 3.600 millj. kr. Við erum að tala hér um mjög gott mál sem er upp á tæplega 400 milljónir. Ég vil inna hæstv. félagsmálaráðherra eftir því, þar sem hún fer með tryggingamálin í ríkisstjórn, hvernig staðið var að því að semja við aldraða og öryrkja í tengslum við gerð kjarasamninga þar sem viðmiðið var lækkað.

Mikill áfangi náðist árið 2006 af hálfu aldraðra og öryrkja í viðræðum við ríkisstjórnina hvað það varðar að taka upp nýtt viðmið sem tengdist gerð kjarasamninga og var miðað við svokallaða tekjudagvinnutryggingu launafólks en ekki lægsta taxta verkafólks eins og áður var gert. Þetta var mikið fagnaðarefni sumarið 2006, aldraðir og öryrkjar fögnuðu þessum áfanga. En nú árið 2008 er búið að lækka viðmiðið á ný hjá nýrri ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, fór mjög vel yfir það á fundi félags- og tryggingamálanefndar að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að lækka þetta viðmið, kostaði þessa hópa um 3.600 millj. kr. Það eru miklir fjármunir þegar við erum að tala um tæpar 400 milljónir í þessu máli til handa öldruðum og öryrkjum. Við þurfum útskýringar á því hvers vegna ný ríkisstjórn ákvað að breyta þeirri ákvörðun og því viðmiði sem var sett árið 2006.

Margir hópar í samfélaginu hafa verið að ræða kaup og kjör við sína viðsemjendur og því vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hefur samráði og viðræðum ríkisstjórnarinnar við aldraða og öryrkja verið háttað að undanförnu, sérstaklega í ljósi þessarar ákvörðunar? Fóru fram viðræður af hálfu ríkisstjórnarinnar við aldraða og öryrkja vegna þessarar nýju ákvörðunar sem ríkisstjórnin tók eða var þetta einhliða ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna?

Mínar upplýsingar eru þær að ekki hafi verið mikið um formlegar samningaviðræður vegna þessa en ég vona að hæstv. ráðherra geti leiðrétt það hér. Hin nýja ríkisstjórn fór af stað með það að leiðarljósi að auka samráð og samræðu á milli ólíkra þjóðfélagshópa og það væri því mjög alvarlegt, ef rétt reynist, að hún hafi einhliða ákveðið við hvað miða ætti bætur aldraðra og öryrkja við nýgerða kjarasamninga og þvert á það sem ríkisstjórnin boðaði þegar hún tók til starfa.

Í tilefni af utandagskrárumræðu í gær þar sem hæstv. forsætisráðherra var til andsvara og sagði að menn deildu um meiningar í þessu — hann notaði þau orð að Alþýðusamband Íslands væri ekki heilög kirkja í sínum augum — vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort samstaða sé í ríkisstjórninni um viðhorf gagnvart samkomulaginu sem gert var árið 2006. Hæstv. forsætisráðherra sagði hér í gær að þar hefði verið um að ræða ákvörðun í eitt skipti sem ekki hefði átt að gefa neitt fordæmi en þeir samningsaðilar sem áttu viðskipti við ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks árið 2006 litu svo á að búið væri að hækka viðmiðið varanlega.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hún leggi traust og trúnað á útreikning Alþýðusambands Íslands vegna þeirrar kjaraskerðingar sem þessir þjóðfélagshópar verða fyrir, heila 3,6 milljarða. Það hefði kostað ríkissjóð 3,6 milljörðum meira til bóta almannatrygginga ef farið hefði verið eftir gamla viðmiðinu. Það er mikilvægt, í ljósi þess að við ræðum þetta ágæta frumvarp, að við fáum sjónarmið hæstv. félagsmálaráðherra fram því að mikil reiði er hjá öldruðum og öryrkjum og forsvarsmönnum Alþýðusambands Íslands vegna þessarar ákvörðunar sem ríkisstjórnin tók á dögunum. Hæstv. núverandi félagsmálaráðherra — sem hélt margar ágætar ræður hér á síðasta kjörtímabili um að um væri að ræða hópa sem hefðu ekki breiðustu bökin — þarf nú að standa hér og gera grein fyrir því hvers vegna ríkisstjórnin ákvað að hafa 3,6 milljarða af þessum tveimur þjóðfélagshópum.

Ég hélt einfaldlega, þegar stjórnmálaflokkarnir komu fram með loforð sín í aðdraganda síðustu kosninga, að menn ætluðu að bæta við í málaflokkinn, ekki að taka 3,6 milljarða úr einum vasanum og færa yfir í annan. Hér er náttúrlega um stórt mál að ræða, eitt stærsta baráttumál allra stjórnmálaflokka sem tóku þátt í síðustu kosningabaráttu og við þurfum að fá skýr svör.

Að öðru leyti vil ég fagna því frumvarpi sem við ræðum hér. Við munum fara yfir það á vettvangi félagsmálanefndar þingsins og hef ég trú á því að við munum gera það hratt og vel þannig að þessar greiðslur muni skila sér til örorkulífeyrisþega. Mér finnst nauðsynlegt, um leið og við ræðum frumvarpið, að fá svör við því sem snertir aðra þætti mála hjá öldruðum og öryrkjum. Ég spyr: Hvers vegna ákvað ríkisstjórnin að ganga á bak þess samkomulags sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gerði sumarið 2006 við samtök öryrkja og aldraðra? Hvers vegna, hæstv. forseti?