135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

almannatryggingar.

614. mál
[12:52]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það var sjálfsagt að veita afbrigði frá þingsköpum og taka frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar á dagskrá í dag og afgreiða það á þessu vorþingi svo að komið geti til þeirra kjarabóta til öryrkja sem það segir til um.

Hæstv. forseti. Ég vil spóla aðeins til baka og rifja upp þær umræður sem voru hér þegar samsvarandi frítekjumark var innleitt til aldraðra, til þeirra sem taka ellilífeyri en þá var það gagnrýnt mjög harðlega hér í þingsal að samsvarandi ákvæði næðu ekki einnig til öryrkja.

Öllum er hollt að vera meðal manna og taka þátt í atvinnulífi ef heilsa leyfir og vilji er til. Það hefur jákvæð áhrif á heilsuna, andlega og líkamlega, og rýfur félagslega einangrun. Að því á að stefna í þeim breytingum sem verið er að vinna að undir stjórn hæstv. félagsmálaráðherra. Stefnt er að því að breyta laga- og starfsumhverfi og þeim félagslega stuðningi sem snýr að öryrkjum, að breyta því kerfi þannig að það verði frekar hvetjandi en letjandi að fara út á vinnumarkaðinn, að meira verði horft á endurhæfingu en gert hefur verið.

Það var undarlegt í meira lagi að sú hækkun sem hér er verið að leggja til, að frítekjumarkið yrði miðað við 100 þús. kr. á mánuði, skyldi ekki tekin upp á sama tíma og þó það væri áætlað tímabundið. Hver mánuður skiptir máli fyrir þessa einstaklinga.

Ég ætla ekki að reyna að geta hér í eyðurnar, töfina sem orðið hefur eða væntingar um að breytingar á löggjöf, ný heildarlöggjöf um þjónustu við öryrkja, líti dagsins ljós. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það tekur tíma að umbylta rótgrónu kerfi eins gallað og það er og það kostar vinnu. Það er kannski það sem löggjafarvaldið hefur skort, og þá vegna mikils þrýstings frá framkvæmdarvaldinu, þ.e. að gefa okkur þann tíma sem eðlilegur þykir við að undirbúa og undirbyggja meiri háttar breytingar í stjórnskipun þessa lands, eins og þær sem nú standa fyrir dyrum hvað varðar uppdeilingu á lífeyris- og sjúkratryggingum. Þetta eru meiri háttar kerfisbreytingar og við verðum að gefa okkur tíma til að vinna þær vel til þess að þær náist fram.

En að frumvarpinu. Ég tel mikilvægt að viðkomandi aðilar verði kallaðir til og farið verði yfir málið í hv. félagsmálanefnd vegna þess að þetta er bara hluti af kjörum öryrkja eins og þau eru í dag. Við vorum með utandagskrárumræðu í gær um hækkun á lífeyrisgreiðslum og því miður fór það þannig — samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef var það gert einhliða án nokkurs samráðs við öryrkja og ellilífeyrisþega — að breytt var þeirri viðmiðun sem hafði verið komið á árið 2006, þegar valið var að taka meðaltal dagvinnutryggingar launafólks sem viðmiðun til hækkana. Nú var því breytt.

Það þýðir að vonir öryrkja og lífeyrisþega um að grunnlífeyririnn mundi hækka um 18 þús. kr., eins og þeir sem eru með lægstu launin fengu sérstaklega í sinn hlut í síðustu kjarasamningum, brugðust, urðu að engu. Það munar um hvern tíuþúsundkallinn og þarna urðu þessir aðilar og launþegasamtökin í landinu fyrir miklum vonbrigðum með að ekki væri staðið undir þeim væntingum og verið væri að breyta þessari viðmiðun sem þýddi að hækkanirnar urðu ekki nema 4–5 þús. kr. á mánuði í staðinn fyrir 18 þús. kr. eins og menn höfðu talið að yrði. Þetta er því hluti af stærri heild.

Það þarf líka að huga að áframhaldandi samráði við öryrkja, við alla lífeyrisþega, samráði sem var byrjað á og sem Samfylkingin hafði sem eitt af höfuðmarkmiðunum í kosningabaráttu sinni — samráðsstjórnun, samræðustjórnmál, ný sýn á það hvernig fara ætti inn í stjórnmálin og samskipti við fólk og ákveðna hópa í landinu. Samræðustjórnmál — sú samræða virðist ekki vera komin á. Ég hvet hæstv. félagsmálaráðherra til að taka upp þráðinn og halda uppi þessu samráði og hlusta á lífeyrisþega þegar þeir koma fram með réttmætar kröfur.

Ekki gefst tími til að fara yfir í frekari skoðun á þessari heildarsýn. Tími verður til þess síðar. Skattkerfið kemur þarna inn, hvernig við byggjum það upp. Á að halda áfram á þeirri braut sem verið hefur, að hygla þeim sem hafa það betra? Á að hygla hátekjufólki? Á að setja á réttlátara skattkerfi þannig að þeir sem minna mega sín geti fengið hærri lífeyri, lifað betra lífi, fengið lífeyri sem stendur undir neysluþörfum og eðlilegum kostnaði við daglegt líf sem er ekki í dag?

Hæstv. forseti. Það eru mannréttindi að fá að taka virkan þátt á vinnumarkaði eftir því sem heilsan leyfir og frumvarpið er skref í þá átt. En miklu meira þarf til til þess að við getum sem þjóð verið stolt af því öryggisneti og þeim grunnlífeyri sem lífeyrisþegar eiga skilið og eiga rétt á.