135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

almannatryggingar.

614. mál
[13:45]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Það er sjálfsagt að allir Íslendingar hafi möguleika á að lifa af þeim tekjum sem í boði eru frá ríkinu. Það er ekki há upphæð sem Tryggingastofnun borgar þeim sem verst eru staddir. Þegar ellilífeyrisþegar og öryrkjar hafa innan við 100 þús. eða um 100–110 þús. kr. á mánuði til framfærslu þá eru hlutirnir ekki í lagi.

Lágmarkið til framfærslu eru 180 þús. kr. á mánuði eða jafnvel meira, bara til að geta skrimt, til þess að geta lifað. Upp á það er ekki boðið í okkar kerfi. Eins og ræðumenn hér á undan mér hafa rakið þá eru skerðingarákvæði Tryggingastofnunar vegna tekna eða tekna úr lífeyrissjóðum hlutir sem ganga bara ekki upp að mínu mati. Ég veit að hæstv. félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefur vilja til að gera gott og bæta um betur í þessum málum þótt henni gangi illa að tryggja sér fjármagn í þessi velferðarmál. Þess vegna er þetta ekki betra en raun ber vitni. Fyrir nokkrum árum flutti hún tillögu um lágmarkslaun, hvað þyrfti til svo að fólk gæti lifað af lágmarkslaunum.

Það sama á við um lágmarkslaun fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja. Á hverju ári er reiknað út hvað fólk þarf að hafa til framfærslu. Menn hældu sér af því hér á haustdögum að Íslendingar væru best stadda þjóðin nánast í heiminum, ríkasta þjóð í heimi og að allt væri best hjá okkur. Það er skrýtið að ekki skuli hafa komið fram tillögur frá ríkisstjórninni, stjórnarflokkunum, um að bæta stöðu þessa hóps, sem er kannski ekki svo fjölmennur, sem hefur ekkert nema lægstu bætur eða laun frá Tryggingastofnun.

Ég hefði viljað sjá miklu hærri tölur í þessu efni og skora á hæstv. félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur að beita sér enn þá betur fyrir þetta fólk. Það er okkur til skammar, Alþingi Íslendinga og íslensku þjóðinni, að ákveðinn hópur skuli búa við svo hrikalega léleg kjör að það er ekki hægt að sætta sig við það.

Á sama tíma eyðum við peningum í ýmis gæluverkefni út um allan heim. Við flytjum inn fólk frá Írak og það er auðvitað mjög gott að við skulum treysta okkur til þess. En það er nú góð regla að byrja að taka til í garðinum hjá sjálfum sér áður en maður fer að taka til í garðinum hjá öðrum.

Það er það sem við þurfum að gera. Við þurfum að einhenda okkur í það að bæta stöðu þessara Íslendinga sem búa við bág kjör og hafa langt um minna milli handanna en það sem er talið eðlilegt til framfærslu. Við þurfum að bæta kjör þessa fólks. Ég trúi því og treysti að það verði gert. Við í Frjálslynda flokknum höfum flutt margar tillögur þess efnis, bæði á þessu þingi og áður sem væru til verulegra bóta fyrir það fólk sem hefur þessi skammarlegu lágu laun og skammarlegu lélegu lífsskilyrði. Þetta fólk er oft og tíðum upp á aðra komið í fjölskyldum sínum bara til að geta þraukað svona skítsæmilega, eins og maður segir á venjulegri og góðri íslensku.