135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

almannatryggingar.

614. mál
[13:50]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram um þetta frumvarp og reyndar kjör lífeyrisþega almennt. Ég get ekki skilið annað af umræðunni en að menn séu almennt sáttir við frumvarpið sem ég hef hér mælt fyrir þó að eðli málsins samkvæmt hafi menn rætt almennt um almannatryggingakerfið og kjör lífeyrisþega sem er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt að gera þegar tækifæri gefst til hér á hv. Alþingi.

Mig langar að svara nokkrum af þeim spurningum sem hér hafa komið fram og vil byrja á ágætri ræðu hv. 9. þm. Norðvest. Kristins H. Gunnarssonar sem fór yfir ýmsa þætti sem snúa að lífeyrismálum og kjörum lífeyrisþega. Sumu af því sem hann setti fram í ágætri og málefnalegri ræðu er ég sammála.

Hv. þingmaður fór nokkuð ofan í skerðingar annars vegar á greiðslum úr lífeyrissjóðum og hins vegar úr almannatryggingakerfinu og vitnaði til ummæla minna um það sem ég viðhafði á ráðstefnu í gær. Það sem ég vitna til er að það verður að taka á samspili lífeyristryggingakerfisins við almannatryggingakerfið. Það er nú með þeim hætti að um leið og stjórnvöld reyna að bæta kjör lífeyrisþega í gegnum almannatryggingakerfið eru þau skert hjá lífeyrissjóðunum og síðan öfugt. Þetta bítur því í skottið hvað á öðru sem er alveg ótækt.

Við vitum að lífeyrissjóðirnir hafa ekki alls fyrir löngu verið að skerða mjög mikið kjör hjá öryrkjum sem bitnaði á fátækustu öryrkjunum. Mér sýnist t.d. að þær miklu kjarabætur sem við réðumst í og tóku gildi 1. apríl og taka svo aftur gildi 1. júlí, gætu ef ekkert er að gert, skert aftur greiðslur úr lífeyrissjóðakerfinu á næsta ári. Þetta er auðvitað óviðunandi að samspil almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðanna sé með þeim hætti.

Ég lít nú svo á að það sé eitt af meginverkefnunum í þeirri nefnd sem er að skoða almannatryggingakerfið og reyna að einfalda það, að gera það skilvirkara og betra þannig að það þjóni betur fólkinu, að það taki á þessum málum. Ég heyri ekki betur en að það sé vilji fyrir því innan lífeyrissjóðanna og í þessari nefnd að skoða hvernig þessi kerfi geti unnið betur saman.

Það er auðvitað ekki markmið, eins og mér fannst liggja í orðum hv. þingmanns, að við séum að stefna að því að greiðslur úr almannatryggingakerfinu renni til einstaklinga óháð efnahag. Ég held að við förum aldrei inn á þá braut. En við erum að byrja að feta okkur inn í einfaldara og skynsamlegra kerfi, m.a. með því að taka upp þessi frítekjumörk sem aldraðir eru með og við setjum hér á tímabundið fyrir öryrkjana. Jafnframt gerum við það með því að taka upp frítekjumark fyrir öryrkjana að því er varðar greiðslur úr lífeyrissjóðnum. Þar er sett þak á 25 þús. kr.

Það hlýtur að vera næsta skref — og vísa ég þá í hv. þingmann Guðjón A. Kristjánsson sem ræddi hér um það áðan að það þyrfti að vera frítekjumark á lífeyrisgreiðslum. Við erum búin að stíga skrefið gagnvart öryrkjum og þurfum að stíga það líka gagnvart öldruðum.

Lífeyrisþegarnir fá hér greiðslur sem öryrkjarnir fá t.d. ekki sem er þessi 25 þús. kr. uppbót á lífeyri fyrir þá sem ekkert hafa úr lífeyrissjóðum. Þarfir þessara tveggja hópa eru mismunandi og við verðum að horfa á þá með það fyrir augum. Við eigum ekki endilega að setja úrbætur í málefnum þeirra í sama farið. Við getum þurft að fara mismunandi leiðir að því. Öryrkjar eru t.d. með aldurstengda örorku eins og örorkuuppbót o.s.frv.

Ég held að það sé verðugt verkefni að skoða samspil lífeyriskerfisins og almannatryggingakerfisins og reyndar skattkerfisins líka. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að taka á því. Ég tek undir með Guðjóni A. Kristjánssyni að það þarf líka að skoða frítekjumarkið í lífeyrissjóðum gagnvart öldruðum og ég vona að það verði næsta skrefið.

Mig langar að fara út í það sem fram kom hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni þar sem hann ræddi um greiðslur almannatrygginga í tengslum við nýgerða kjarasamninga og spurði ýmissa spurninga af því tilefni sem mér er ljúft að svara. Ein spurningin var hvort haft hefði verið eitthvert samráð við öryrkja og aldraða að því er varðar hlut þeirra í nýgerðum kjarasamningum. Ég kallaði til mín forsvarsmenn aldraðra og öryrkja áður en ég setti reglugerðina um 7,4% hækkun á lífeyrisgreiðslum til þeirra á þessu ári. Það var því farið yfir þetta með þeim.

Á þeim fundum var ekki hreyft mótmælum við þeim hugmyndum sem ég setti fram þótt þær hafi komið fram síðar. Það er því ljóst að haft var samráð við þessa hópa áður en reglugerðin var gefin út.

Hv. þingmaður heldur því fram, og ég hef heyrt formann hans halda því fram líka, að með þeim greiðslum sem runnu til lífeyrisþega í tengslum við kjarasamningana sé verið að ganga á bak einhverju samkomulagi sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn gerðu á árinu 2006. Ég bið hv. þingmann að finna þessum orðum sínum stað. Ég hef verið að leita að þessu og ég hef bara alls ekki fundið þetta. Ég hef litið á þetta samkomulag sem gert var 2006 og ég heyrði forsætisráðherra segja hér í gær að þetta hefði verið samkomulag sem hefði verið gert í eitt skipti en ekki til frambúðar. En framsóknarmenn setja dæmið upp með þeim hætti að gerður hafi verið samningur um að hér eftir ættu kjör lífeyrisþega að miðast við dagvinnutryggingu eða lágmarkslaun. Ég hef bara ekki fundið þessu stað í gögnum sem ég hef flett og ég skora á hv. þingmann að setja það fram.

Staðreyndin sem við stöndum frammi fyrir er að kjör lífeyrisþega byrjuðu fyrst að skerðast með þeim hætti sem gert hefur síðastliðin tólf ár þegar slitið var á tengsl launa og lífeyris árið 1996. Þá byrjuðu fyrst hremmingarnar hjá lífeyrisþegunum.

Ég hef undir höndum töflu þar sem verið er að skoða aftur í tímann, alveg til 1988, hvernig lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun hafa haldist í hendur við lágmarkslaun. Þá er ég að tala um lágmarksgreiðslur til þeirra sem ekkert hafa nema greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Ef sú tafla er skoðuð, hver er þá staðreyndin, virðulegi forseti? Er það allt í einu núna sem ekki er greitt í samræmi við lágmarkslaun sem var annars gert allan tímann sem framsóknarmenn voru í ríkisstjórn? Nei, það er bara í þetta eina skipti, árið 2006, sem greitt var í samræmi við samninga um lágmarkslaun. Aldrei var greitt í samræmi við lágmarkslaun nema í þetta eina skipti á meðan Framsókn var í ríkisstjórn.

Og hvernig kom það til, virðulegi forseti? Það var vegna þess þegar samningar voru gerðir árið 2006 á miðju ári sat nefnd að störfum, Ásmundarnefndin. Hún reyndi að finna einhverjar úrbætur í kjörum lífeyrisþega eftir það sem á undan hafði gengið í að skerða kjör þeirra. Hún hafði ekki skilað niðurstöðu þegar samningarnir voru í höfn á miðju ári. Til þess að Ásmundarnefndin gæti nú skilað einhverju í bættum kjörum til lífeyrisþega þá voru þessar 15 þús. kr., sem þá var samið um, færðar til Ásmundarnefndar svo að hún gæti útfært þær og skilað einhverju í úrbótum til lífeyrisþega sem hún ella hefði kannski ekki gert. Þetta er nú staðreyndin í þessu máli.

Þegar ég horfi á þetta samkomulag sem gert var í lífeyrismálum 2006 þá sé ég að það er útfært alveg fram til ársins 2010. Þá áttu kjarabæturnar, sem áttu að koma fram til 2010 til þess að bæta kjör lífeyrisþega, að skila 400 millj. til lífeyrisþega á árinu 2008, 700 millj. til lífeyrisþega á árinu 2009 og 1 milljarði til lífeyrisþega árið 2010. Þetta var nú það sem um var samið.

En hvað er búið að skila miklu til lífeyrisþega á þessu tæpa ári sem þessi ríkisstjórn hefur setið? Það er búið að skila 9 milljörðum til lífeyrisþega en ef þessi ríkisstjórn framsóknarmanna hefði setið áfram, hefðu 400 millj. kr. skilað sér til lífeyrisþega árið 2008, 700 millj. árið 2009 og 1 milljarður árið 2010. Þetta eru nú staðreyndir málsins.

Í þessu samkomulagi frá 2006 sem framsóknarmenn eru alltaf að vitna í þá segir, með leyfi forseta:

Tillögur um bætur almannatrygginga gera ráð fyrir að hækkun launa um 2,9% og verðlags um 4,6% á árinu 2007.

Og síðan bið ég hv. þingmann um að hlusta:

Endanleg ákvörðun bóta á árinu 2007 ræðst á hinn bóginn af ákvæðum laga um almannatryggingar.

Þetta er það sem stendur í samkomulaginu frá 2006. Í því samkomulagi sem ríkisstjórnin gerði núna í tengslum við kjarasamninga þar sem fjallað er um bætur almannatrygginga þá segir:

Bætur almannatrygginga hækki í samræmi við gildandi lög.

Ég sé ekki að neitt sé hér fest á blað um að til frambúðar eigi greiðslur almannatrygginga til lífeyrisþega að miðast við dagvinnutryggingu eða lágmarkslaun. Það er ekkert um það. Þvert á móti er verið að ítreka að um bætur almannatrygginga eigi að gilda ákvæði laga um almannatryggingar. Það sem komið hefur hér fram hjá framsóknarmönnum um drottinsvik, eins og formaður flokksins orðaði það, er bara ekki satt.

Kveðið er á um í samkomulaginu sem aðilar vinnumarkaðarins fengu í hendur, sem er afar mikilvægt og menn skyldu ekki gera lítið úr, að bætur almannatrygginga hækki í samræmi við gildandi lög. Ég heyrði þá aldrei mótmæla því og sat ég nú þessa síðustu fundi með aðilum vinnumarkaðarins þegar verið var að ganga frá þessu plaggi. Síðan kom eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þá mun nefnd á vegum félags- og tryggingamálaráðherra sem hefur það meginverkefni að gera tillögur um róttækar breytingar á almannatryggingakerfinu í því skyni að einfalda það skoða leiðir til að setja ákveðin lágmarksviðmið í framfærslu.“

Það er það sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson 6. þm. Norðvest. var að kalla eftir, að sett væru slík lágmarksviðmið. Eftir að þessi pappír var frágenginn var gengið frá því milli mín og forsætisráðherra að þetta framfærsluviðmið ætti ekki að liggja fyrir 1. nóvember heldur var sagt að það ætti að liggja fyrir 1. júlí næstkomandi. Í það var bætt að það ætti að taka mið af samningunum eða lægstu launum í nýgerðum kjarasamningum. Það á að liggja fyrir núna 1. júlí.

Mér finnst því að framsóknarmenn séu að kasta steinum úr glerhúsi þegar þeir reyna að gera lítið úr því sem gert hefur verið fyrir lífeyrisþega í tíð þessarar ríkisstjórnar á tæpu ári. Ég fullyrði hér og nú að það hefur aldrei áður, hversu langt sem litið er aftur í tíðina, verið gert jafnmikið á jafnskömmum tíma fyrir lífeyrisþega eins og gert hefur verið í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hér er um að ræða verulega fjármuni, 9 milljarða kr.

Það sem enn á eftir að koma inn í þingið er uppbót á lífeyri fyrir þá sem ekkert hafa úr lífeyrissjóðunum, aðeins bætur almannatrygginga sem eru nú 137 þús. kr. Þeir eiga að fá þarna 25 þús. kr. Það er rétt að þær munu skerðast eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson benti á. Vegna skerðingar almannatrygginga getum við farið með það niður í 15 þús. kr., það er þá fyrir skatt. Ef við leggjum 15 þús. kr. ofan á þær 137 þús. kr. sem þeir, þ.e. aldraðir sem ekkert hafa annað en bætur almannatrygginga, hafa núna, þá fá þeir 152 þús. kr. og eru þá komnir upp fyrir dagvinnutrygginguna sem er 145 þús. kr.

Þetta er alveg hægt að bera saman við lágmarkslaunin. Ef maður ber þá sem fengu 15 þús. kr. hækkun á lágmarkslaunum saman við þetta þá á eftir að taka skatta af þeirri upphæð líka. Ef allrar sanngirni er gætt í þessu þá fá þeir, sem lægst hafa og fá engar greiðslur nema úr almannatryggingakerfinu, þessar 25 þús. kr. Við skulum bara setja þær niður í 15 þús. kr. strax út af skerðingunni en þá eru þeir komnir upp fyrir þessa dagvinnutryggingu eða yfir 7 þús. kr.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, og ætla nú ekki að kveða sterkt að orði að mér fannst hv. þingmaður mjög ósanngjarn í málflutningi sínum hér áðan þegar hann brigslaði ríkisstjórninni um að hafa svikið lífeyrisþega að því er varðar eitthvert samkomulag sem Framsóknarflokkurinn á að hafa gert sem átti að gilda inn í framtíðina en ég fæ þó ekki séð það. Jafnframt fannst mér ósanngjarnt af honum að saka ríkisstjórnina um að hafa ekkert eða lítið gert fyrir lífeyrisþega. Staðreyndin er sú að aldrei hefur jafnmikið verið gert á jafnstuttum tíma.