135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

almannatryggingar.

614. mál
[14:18]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra enn og aftur ágæt svör. Í raun kristallast í umræðunni að sú viðmiðun sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn notuðu árið 2006 er ekki notuð núna af ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Hver er mismunurinn vegna nýgerðra kjarasamninga? Hann er 10 þús. kr. í laun á mánuði fyrir lífeyrisþega. Lífeyrisþegar verða af 10 þús. kr. mánaðarlega vegna þessarar nýju viðmiðunar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Þessir flokkar eru líka að spara ríkissjóði 3,6 milljarða sem að sjálfsögðu er þá hægt að nota til þess að koma með önnur vinsæl mál fram. (Félmrh.: Hefur þingmaðurinn reiknað út spar...) Nú heyri ég að hæstv. ráðherra kallar hér fram í. Þegar hún sakar þann sem hér stendur um að halda því fram að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki gert neitt í málefnum aldraðra og öryrkja þá er það bara rangt. Ég er einungis að benda hér á að það er ekki verið að gera sams konar samkomulag við aldraða og öryrkja og framsóknarmenn og sjálfstæðismenn gerðu árið 2006. (Gripið fram í.)

Ég er ekki að gera lítið úr því frumvarpi sem við erum að ræða hér og er undirliggjandi. Ég hef ekki gert það. Ég hef fagnað því. Ég hef hins vegar bent á að það vantar 3,6 milljarða inn í þetta samkomulag og mér finnst því miður dapurlegt að hæstv. félagsmálaráðherra skuli ekki svara því skýrt — og í raun og veru hefur hún hafnað því — að þessum viðmiðunum verði breytt þrátt fyrir að eldri borgarar, öryrkjar, eldri sjálfstæðismenn og eldri samfylkingarmenn hafi kallað til stjórnarflokkanna um að breyta þessu viðmiði í þá átt sem gert var í tíð (Gripið fram í.) ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Nú kallar hæstv. ráðherra fram í: „Hef ég hafnað því?“ Ég vona að hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að þessu viðmiði verði breytt, að ríkisstjórnin breyti þessu viðmiði, því að það er alveg ljóst að að öllu óbreyttu eru kjör (Forseti hringir.) aldraðra og öryrkja að skerðast á þessu ári sem verður svo hugsanlega leiðrétt þá um næstu áramót samkvæmt lögum. En (Forseti hringir.) það er ekki verið að bæta kjörin sérstaklega hvað varðar viðmiðun við kjarasamninga, hæstv. forseti.