135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[14:21]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Guðfinna S. Bjarnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, en það eru lög nr. 57/2005, með síðari breytingum.

Markmið frumvarpsins er að innleiða ESB-tilskipun frá árinu 2005. Sérstaklega er í frumvarpinu fjallað um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innra markaði. Tilskipunin mælir fyrir um allsherjarsamræmi efnis hennar á EES-svæðinu.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tryggva Axelsson og Þórunni Önnu Árnadóttur frá Neytendastofu og Atla Frey Guðmundsson frá viðskiptaráðuneyti.

Með frumvarpinu eru leidd í lög ákvæði tilskipunar 2005/29/EB frá 11. maí 2005 um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum. Tilskipuninni er ætlað að samræma löggjöf aðildarríkja ESB, eins og áður kom fram, og einnig fjallar tilskipunin um vernd fjárhagslegra hagsmuna neytenda gagnvart óréttmætum viðskiptaháttum fyrirtækja. Tilskipunin mælir fyrir um allsherjarsamræmingu á ákvæðum hennar á EES-svæðinu eins og áður sagði.

Til að innleiða tilskipunina réttilega er þörf á ákveðnum breytingum á gildandi lögum. Með frumvarpinu er lagt til að við lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins bætist fimm nýir kaflar sem komi í stað II. kafla laganna og einnig eru lagðar til breytingar á nokkrum greinum laganna.

Þeir kaflar sem breytast verða nú nýr kafli II, Bann við óréttmætum viðskiptaháttum, nýr kafli III, Vernd fjárhagslegra hagsmuna neytenda, kafli IV, Vernd annarra hagsmuna neytenda en fjárhagslegra, kafli V, Háttsemi milli fyrirtækja og að lokum kafli VI, Ábyrgðaryfirlýsingar, trúnaðarskyldur o.fl.

Tilskipunin fjallar sem fyrr segir einkum um vernd fjárhagslegra hagsmuna neytenda en gildandi lög fjalla almennt um neytendavernd en gera ekki greinarmun á hagsmunum neytenda með sama hætti og nú er lagt til. Ákvæði gildandi laga vernda einnig hagsmuni neytenda og keppinauta jöfnum höndum en gera ekki sérstakan greinarmun þar á. Tilskipunin greinir hins vegar á milli háttsemi fyrirtækja gagnvart neytendum og háttsemi fyrirtækja gagnvart keppinautum sínum. Til að tryggja rétta innleiðingu tilskipunarinnar og til að leitast við að framkvæmdin verði sambærileg við framkvæmd annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu er lagt til að í lögum hér á landi verði með sama hætti greint þarna á milli og byggjast tillögur frumvarpsins á því, á þessari aðgreiningu.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Lögð er til orðalagsbreyting á 1. mgr. f-liðar 2. gr. Sömuleiðis er lögð til lagfæring á orðalagi 2. mgr. i-liðar 2. gr. en með ákvæðinu er ætlunin að undirstrika að sérreglur III. kafla frumvarpsins ganga framar vísireglu 1. mgr. i-liðar 2. gr. frumvarpsins. Lögð er til sú breyting á a- og b-lið 3. gr. frumvarpsins að í stað orðsins „athafnir“ komi „viðskiptahættir“. Er þetta gert til að samræma orðanotkun við þá kafla sem vísað er til í greininni og einnig svo að greinin taki jafnt til athafna sem athafnaleysis. Þá er einnig lagt til að við upptalningu á þeim köflum sem tilgreindir eru í greinunum bætist tilvísun í VII. kafla um eftirlit með gagnsæi markaðarins og VIII. kafla um upplýsingaskyldu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Árni Páll Árnason, Björk Guðjónsdóttir og Höskuldur Þórhallsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Þetta er undirritað á Alþingi 29. apríl 2008 og undirrita það hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður nefndarinnar, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Jón Bjarnason, Birgir Ármannsson, Birkir J. Jónsson og Jón Gunnarsson.