135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:20]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek það mjög skýrt fram að ég hef aldrei gefið til kynna að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé viljalaust verkfæri eins eða neins. Hann tekur mjög sjálfstæða afstöðu.

En það er rétt hjá honum að sjónarmið hans og þessara aðila fara saman. Þótt hann sé ekki viljalaust verkfæri þá er ég einmitt að gagnrýna þennan vilja, þennan pólitíska vilja. (Gripið fram í.)

Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni að það fara miklir peningar í sóun og bruðl og ekki síst hjá þeirri ríkisstjórn sem nú situr sem ætlar að fara að pumpa milljörðum í nýja varnarmálastofnun, svo að nýjasta dæmið sé tekið og kannski það alvarlegasta. Það er alveg rétt.

Það er líka rétt að skattborgarinn og þeir sem eiga allt sitt undir almannatryggingum, ríkisvaldinu og sveitarfélögum komið eru oft varnarlausir t.d. gagnvart þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Við vorum að ræða það hér áðan hvers vegna skattleysismörk væru ekki hækkuð, hvers vegna kjör öryrkja væru ekki bætt meira en raun ber vitni. Síðar í dag fáum við síðan þetta frumvarp sem hv. þingmaður talar fyrir, um að bæta kjör þeirra sem hafa þau best í þjóðfélaginu og um þetta fjallar pólitíkin. Við tökumst á um þessar áherslur.

Það er mikill misskilningur að halda að hinn almenni maður sé betur kominn, að ég tali nú ekki um láglaunamanninn, öryrkjann og hinn aldraða, ef opnaðar eru hér allar gáttir fyrir fjármagni og auðvaldsdraumum.

Nei. Við eigum að leggja metnað okkar í að bæta kjör þeirra sem hafa þau lökust í landinu og kjör millitekjuhópanna einnig en það er nokkuð sem þessi ríkisstjórn mun ekki geta stært sig (Forseti hringir.) af að gera.