135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:42]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það hefur heldur betur sýnt sig að ástæða var til þess að hv. þingnefnd tæki þetta mál aftur til skoðunar og hefði verið slys ef það hefði laumast í gegnum þingið og ekki fengið þá athygli sem það verðskuldar en það læðist að manni sá grunur að það hafi átt að reyna láta fara eins lítið fyrir því og hægt væri af hálfu aðstandenda málsins, þ.e. stjórnarflokkanna.

Það sem við erum með í höndunum er ákaflega dæmigert fyrir þá staðreynd, þann veruleika sem auðvitað er orðinn manni löngu ljós, að örlæti ríkisstjórnarinnar, örlæti Sjálfstæðisflokksins og skiptir þá ekki öllu máli hverjir samstarfsaðilar hans virðast vera á hverjum tíma, örlæti þessara afla þegar kemur að fjármagninu, gróðaöflunum í landinu, eru engin takmörk sett. Þá er hægt að gera allt sem beðið er um. Þessu örlæti hefur almenningur hins vegar lítið kynnst á sömu árum, sérstaklega lágtekjufólkið sem hefur sætt þyngri skattbyrði að undanförnu vegna þess hvernig persónuskattar hafa verið útfærðir og skattleysismörk ekki verið látin fylgja verðlagsþróun hvað þá launaþróun.

Hér er dæmi um þetta takmarkalausa örlæti og í raun og veru gagnrýnislausa örlæti. Það er ekki einu sinni hugað að því hvað menn geta verið að gera í leiðinni, hvers konar fordæmi menn gætu verið að skapa og hvernig þeir hlutir gætu komið út. Það er afar athyglisvert. Ég hef t.d. ekki heyrt aðstandendur málsins, hv. þm. Pétur Blöndal, og formann þingflokks Samfylkingarinnar sem heiðrar okkur með nærveru sinni, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, ræða efnislega um varnaðarorð og athugasemdir ríkisskattstjóra. Hver eru svör hv. þingmanna gagnvart þeim varnaðarorðum? Hvernig fullvissa þeir þingheim um að það sé ekki ástæða til að óttast að verið sé að gefa fordæmi, stílbrot í almennri skattframkvæmd sem með þessu fari að eiga sér stað?

Það er auðvitað þannig að búið hefur verið til nánast einstætt bómullarumhverfi fyrir fjármagnseigendur og fyrirtækjaeigendur hér á landi á síðustu 10–15 árum. Það er staðreynd. Það er staðreynd að skattalegt umhverfi fyrirtækja, lögaðila og þeirra sem hafa tekjur af fjármagni, arð af innstæðum eða hagnað af sölu hlutabréfa eða annað í þeim dúr, er með því hagstæðasta eða það allra hagstæðasta sem þekkist innan aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD. Það er veruleikinn. Nú á enn að gera betur við fyrirtækin því að á borðum eru frumvörp um að lækka tekjuskatt lögaðila úr 18% niður í 15 og þá er það hlutfall sannanlega orðið það næstlægsta innan OECD. (Gripið fram í: Írland?) Nei, ég held að færa megi fyrir því rök að Írar séu lægri en þó eru að vísu ekki alveg sambærilegir skattstofnarir sem þar eiga við. Það verður auðvitað að skoða frádráttarheimildir og breidd skattstofnsins líka. (Gripið fram í: Hann er mjög …) Hann er að vissulega nokkuð almennur hér en þetta er líka lægsta eða næstlægsta hlutfall sem til er. Fjármagnstekjuskatturinn hér er í reynd sá lægsti sem til. (Gripið fram í.) Að vísu ekki, en 10% hlutfall er held ég hvergi til sem almennt hlutfall upp úr, óháð tekjum. Ég held að nánast alls staðar annars staðar séu miklar fjármagnstekjur skattlagðar eitthvað hærra. En þetta dugar ekki til.

Hver voru rökin á sínum tíma þegar verið var að réttlæta það að keyra skatthlutföll fyrirtækja langt niður úr því sem gildir um tekjur almennings? (PHB: Skatttekjur ríkissjóðs.) Það væri svo nauðsynlegt að tryggja samkeppnishæft umhverfi fyrir atvinnulífið og missa það ekki úr landi. Ætli það hafi ekki verið sagt nokkrum sinnum úr þessum ræðustóli, m.a. af hv. þm. Pétri Blöndal, að við verðum að bjóða betur til að missa fyrirtækin ekki úr landi en þau fóru samt, eða hvað? Það dugar sem sagt ekki að búa til algert bómullarumhverfi með einhverju lægsta hlutfalli tekjuskatts af hagnaði lögaðila, einhverjum lægsta fjármagnstekjuskatti sem fyrirfinnst, ef menn finna enn smugur til að komast jafnvel hjá þeim óverulega skatti reyna menn það og þá á bara að láta það eftir þeim. Þá eiga þeir að ráða ferðinni í staðinn fyrir t.d. að menn skoði það hvort skattalöggjöfin sé kannski háskalega götótt hér hvað það varðar að menn geti flutt óhindrað úr landi skattskyld verðmæti og komist hjá skattinum. Það er eitt af því sem ríkisskattstjóri og fleiri fagaðilar á þessu sviði hafa dregið athyglina að. Ættum við kannski að líta á þá hlið mála? Ef það er rétt að þessi verðmæti og þessir skattar séu gengnir okkur úr greipum eru auðvitað tvær leiðir til í því. Önnur er uppgjafarleiðin, að gera bara eins og þeir biðja um, eins og núverandi ríkisstjórnin grípur til. Hin er sú að segja: Við þurfum kannski að skoða þetta. (PHB: Setja höft?) Setja höft? Já, komi hv. þm. Pétur Blöndal hér og haldi eina ræðuna enn um það. Gjörðu svo vel, hv. þingmaður, orðið er örugglega laust. Það má sem sagt aldrei velta því fyrir sér hvort hafa eigi einhverjar reglur um hlutina, þannig að þeir sem vilja losna við að borga skatta geti það. Hv. þm. Pétur Blöndal vill bara að gróðamenn og stórfyrirtæki losni við að borga skatta með öllum tiltækum leiðum og hann eltir þau, hann eltir götuna og er boðberi þeirra erinda inn á Alþingi að því er virðist nánast samkvæmt pöntunum eins og breytingarnar á 2. gr. þessa frumvarps við 2. umr. voru auðvitað með endemum.

Það alveg ljóst og um það hefur ekki verið deilt að við þurfum að hafa samkeppnisfært umhverfi fyrir atvinnulíf okkar á Íslandi og um það hafa engin átök verið. Átökin hafa verið um það hvort ganga eigi lengra, hvort búa eigi til alveg einstakt bómullarumhverfi hér á landi, einhverja skattasmugu. Auðvitað voru hér á ferðinni fáránlegar æfingar í þá átt, lög sem er jafnvel búið að fella úr gildi aftur, þegar menn dreymdi drauma um það og sóttu sér hugmyndafræði í rit Hannesar Hólmsteins um að búa til eitthvert alveg sérstakt bómullarumhverfi hér fyrir fyrirtæki skráð erlendis sem kæmu hingað og hefðu heimilisfang í skúffum og borguðu 5% skatta. Það fór eins og það fór en menn hafa lítið lært af því. Og hér kemur sem sagt frumvarp sem gengur í raun og veru algerlega erinda þessara sjónarmiða, ákveður bara að hundruð milljarða króna í skattskyldum tekjum, sem þær auðvitað eru, söluhagnaður lögaðila af hlutabréfum er skattskyldar tekjur og höfðu verið allan tímann, sé bara gefið eftir á einu bretti sisvona. Þetta hafa verið og eru að gildandi lögum skattskyldar tekjur, skattskyldur hagnaður með þeirri einu undanþágu að menn hafa mátt fresta greiðslu skattsins í tvö ár og hann fellur niður menn endurfjárfesta innan þeirra tímamarka á móti. Auðvitað má velta því fyrir sér hvort þær reglur voru of glannalega útfærðar, sérstaklega í samhenginu við það að menn gætu flutt hinn skattskylda hagnað úr landi á meðan í skjóli frestunarinnar en það er auðvitað það sem birtist okkur núna. Nei, menn fara ekki að skoða það, velta því fyrir sér hvort reglurnar þyrftu kannski í grunninn að vera einhvern veginn öðruvísi. Nei, heldur segja menn: Við skulum bara gefa þeim þetta eftir. Þeir eru örugglega vel að því komnir, er það ekki? Það er hugsunin. En að það örli fyrir einhverju slíku örlæti gagnvart skattpíndum almenningi í landinu, nei. Þá kemur kannski að því að einhver hefði látið sér detta í hug að það yrði einhver breyting á þegar Samfylkingin kom í ríkisstjórn. Heitir hún ekki Jafnaðarmannaflokkur Íslands á viðhafnardögum? Hún bætir því aftan við heitið, held ég. Jafnaðarmannaflokkur Íslands ætlar að standa að þessu gegn mótmælum Alþýðusambandsins, gegn varnaðarorðum ríkisskattstjóra. Það er athyglisvert. Það virðast engar vomur vera á Samfylkingunni í þeim efnum. Færust himinn og jörð ef menn tækju sér tíma til að skoða þetta aðeins betur? Það held ég ekki. Úr því að allur þessi óskapa hagnaður er kominn til Hollands eða Noregs eða hvert það nú er og er geymdur þar í skúffum í bili, þá það. Þjóðhollusta höfðingjanna sem fengju hér meira og minna almannaeignir á silfurfati hefur ekki reynst meiri en svo að þeir fara í allar smugur sem þeir geta uppgötvað, þefað uppi með lögfræðingunum sínum, til að losna við að borga einhverjar krónur í ríkissjóð Íslands hafandi fengið, sumir hverjir, þjóðbankana meira og minna að gjöf. Þannig er þetta.

Ég held að engin ástæða sé til að hrapa svona að þessu ráðslagi hér og við ættum frekar að snúa okkur að því sem auðvitað hefði átt að vera okkar leiðarljós í skattasamstarfi þjóða allan tímann, að vera með í baráttunni um að stoppa upp í skattasmugur og koma í veg fyrir skaðlega skattasamkeppni því að þetta er ekkert annað. Hvar endar sá hugsunarháttur að elta alltaf þann sem opnar nýja og nýja smugu einhvers staðar? Hann endar auðvitað í því að fjármagnið og gróðinn fær að valsa um heiminn algerlega frjálst og án þess að leggja neitt af mörkum og launamennirnir sitja einir eftir með skattbyrðarnar. Þess vegna er það auðvitað til skammar hvað Ísland hefur skorið sig úr og verið aumingjalegt t.d. á vettvangi OECD eða í samstarfi Norðurlandanna þar sem menn hafa verið að reyna að reisa sameiginlegan norrænan front í þeim efnum að Norðurlöndin beittu sér á alþjóðavettvangi í þágu þess að koma í veg fyrir skaðlega skattasamkeppni, „skadelig skattekonkurranse“ eins og það heitir á skandinavísku. En … (PHB: Það var búið að ræða það.) Aldeilis ekki. Já, það má kannski endurtaka það, hv. þm. Pétur Blöndal, það er spurning um þykktina á hljóðhimnunum, (Gripið fram í.) hvort eitthvað kemst inn um þær. (PHB: ... við umræðuna.) Ég fylgdist með þessari umræðu allri saman frá byrjun, hv. þm. Pétur Blöndal, og þarf ekki svona glósur. Er hv. þingmanni orðið órótt? Er óþægilegt að þetta sé rætt svona? (Gripið fram í.) Er það vont fyrir Sjálfstæðisflokkinn að staðreyndir þessara mála séu aðeins rifjaðar upp? Er það vont? (PHB: Það er vont að endurtaka það.) Ég held ekki. Ég held að það sé mjög gagnlegt að endurtaka vissa hluti, alveg sérstaklega þegar næmnin er ekki meiri en raun ber vitni hjá sumum þeim sem á hlýða. (Gripið fram í: Ég hef …)

Síðan er það eitt enn, herra forseti, sem ég ætla að nota eina eða tvær mínútur í að ræða og það er sú undarlega ráðstöfun sem þessu máli tengist að færa með lögum störf af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Samfylkingin reyndi að ná í fylgi út um landið fyrir kosningar og talaði þá mikið um ást sína á landsbyggðinni og hinum dreifðu byggðum og einbeittan ásetning sinn að færa opinber störf út á land og það var fundið upp hugtakið „störf án staðsetningar“. Það kemur að vísu í ljós að það er aðallega auglýsing með staðsetningu í Reykjavík en hér er gengið lengra, hér er gengið enn lengra. Hér eru ekki bara auglýst störf í Reykjavík þvert á stefnu stjórnarinnar, hér eru færð störf með lögum af landsbyggðinni til Reykjavíkur á ákaflega veikum og hæpnum forsendum verð ég að segja. Eða er það boðlegt að segja að öflugustu skattskrifstofur á landsbyggðinni eins og á Akureyri ráði ekki við að sinna stórum fyrirtækjum? Nei, það er ekki boðlegt, það er verið að tala niður til þess starfs sem þar er unnið og það er með öllu ólíðandi að menn komist upp með svona þvælu í röksemdum eða greinargerðum með stjórnarfrumvörpum eða málflutningi. Það er aðstandendum þessa máls til skammar að reyna að bera það á borð að ekki séu aðrar leiðir í þessum efnum en að færa með lögum þessa umsýslu alla til Reykjavíkur. Því ef svo er að það vanti eitthvað upp á að t.d. einhver af fámennari og fáliðaðri skattumdæmunum á landsbyggðinni ráði vel við þetta verkefni þá eru mörg önnur ráð fær í þeim efnum en færa það allt til Reykjavíkur. Það væri auðvitað hægt með verkaskiptingu að ákveða að þetta yrði ekki nema á tilteknum skattskrifstofum. Það væri t.d. hægt að ákveða að þetta yrði allt á Akureyri. Tölvurnar virka í báðar áttir, netið virkar í báðar áttir, ljósleiðarinn virkar í báðar áttir. Það væri alveg prýðileg ráðstöfun að efla þá starfsemi með því að hún fengi þetta viðfangsefni, nokkur störf í viðbót, og gæti styrkt sig með ráðningu sérhæfðra og fróðra manna á þessu sviði. Eða halda menn að ekki séu til löggiltir endurskoðendur utan við 101? Hvers konar þvæla er þetta? Þetta eru sömu aumingjarökin og voru notuð gegn því á árabili að það væri ekki hægt að koma á fót háskóla á Akureyri, það mundi aldrei ganga. Það fengjust aldrei neinir menntaðir menn til að kenna þar. Og tæpum 100 árum áður voru þau notuð til að reyna að sannfæra Norðlendinga um að það þýddi ekkert fyrir þá að reyna að koma upp menntaskóla. Menn hafa ekkert lært, ekkert. Kansellíið í 101 og hinir auðsveipu stjórnmálamenn sem bera boðskap þess hingað inn eru eins og þeir voru fyrir 100 árum. Það hefur ekkert breyst. Ég skora á menn að gera þetta ekki og hætta við afgreiðslu þessa frumvarps af báðum þeim efnisástæðum sem ég hef rakið (Forseti hringir.) og kalla það til baka og láta það ekki sjást í þessum búningi á Alþingi.