135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:28]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú sjaldan sem maður heyrir jafninnantómt glamur úr ræðustól Alþingis eins og það sem hér heyrðist. Í fyrsta lagi kemur það fram í gögnum málsins að hér sé verið að ganga mun lengra en var gert í Noregi og þingmaðurinn mun væntanlega geta lesið sér til um það í þeim gögnum sem fylgja málinu, svo það komi fram.

Í öðru lagi er það auðvitað eðlilegt að hér sé kallað eftir sýn ríkisstjórnarflokks. Það er mjög eðlilegt að það sé kallað eftir því. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, var spurður að því hér áðan í andsvörum m.a. hvernig hann sæi hlutina fyrir sér og gerði ágætlega grein fyrir því. Það voru engin innantóm orð.

Hins vegar koma hér orðaleppar eins og það að vinstri græn séu afturhaldssamasti vinstri flokkur, ég veit eiginlega ekki hvar, í víðri veröld eða guð má vita hvar, kannski í Evrópu því heimssýn hv. þingmanns nær nú yfirleitt ekki mikið lengra en til Evrópu.

Svona orðaleppar hafa enga merkingu, þeir hafa ekki nokkra merkingu. Afturhaldssemi, hvað er það? Er það þá svo og svo mikil framsýni sem hv. þingmaður stendur fyrir að vilja að auka misskiptingu í skattkerfinu eins og hér hefur augljóslega verið lagt til?

Það er auðvitað verið að auka misskiptingu þegar verið er að taka einn hóp, tiltekna tegund fyrirtækja og gera þau skattfrjáls. Hér er verið að tala um það að söluhagnaðurinn af hlutabréfum verði skattfrjáls. Það er sem sagt verið að búa til nýtt skattfrelsi og það þýðir það einfaldlega að þeir sem bera skattbyrðarnar til að standa undir samfélagsþjónustunni verða færri. Það verða færri herðar. Og hverjir sitja eftir? Það er að sjálfsögðu allur almenningur í landinu.

Það kann vel að vera að í augum og huga þingmannsins sé það afturhaldssemi að vilja standa vörð um hagsmuni almennings, vilja standa vörð um einhvers konar sátt í samfélaginu um hvernig byrðunum er dreift. Það kann vel að vera að það sé afturhaldssemi í huga (Forseti hringir.) hv. þingmanns og ef það er svo þá skammast ég mín ekkert fyrir þá afstöðu.