135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:33]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér kom talsvert á óvart að hv. þingmaður skyldi kvarta undan orðfæri hv. þm. Árna Páls Árnasonar í ljósi þeirrar ræðu sem hv. þingmaður flutti áðan þar sem stóryrðin voru ekki spöruð án þess að mikil innstæða væri fyrir því sem sagt var. Ef ég skil hv. þingmann rétt þá var meginþemað nokkurn veginn þetta: Það mætti leggja á þær skattskuldbindingar sem nú eru inni í fyrirtækjunum 18% skatt og það væri verið að skjóta því undan ríkissjóði eða gefa afslátt af því. Þetta var með öðrum orðum svona nokkurn veginn og á þessari fullyrðingu byggist síðan það að verið sé að vega að almenningi, það sé verið að vega að öllum, það sé verið að færa á milli, það sé verið að hampa sumum en ekki öðrum og svo framvegis. (Gripið fram í.) Þetta er nokkurn veginn það sem hv. þingmaður sagði. Það kemur hins vegar mjög skýrt fram og hefur komið skýrt fram bæði í greinargerðinni og fyrir nefndinni að það eru nánast engar líkur á því að nokkuð af þessu innheimtist. Þess vegna hlýt ég að spyrja hv. þingmann: Hvernig leyfir hann sér að koma hér í ræðustól og segja mjög stór og mikil orð byggð á yfirlýsingum eins og þessari sem hér um ræðir, að það sé verið að skjóta undan 18% af þeim skattskuldbindingum sem nú eru í bókum fyrirtækisins, því það er vitað og kom skýrt fram í nefndinni að þetta muni aldrei innheimtast. Ég held að hv. þingmaður hljóti að þurfa að gera einhverja grein fyrir fullyrðingum af þessum toga ef á að vera hægt að taka hann alvarlega í umræðu eins og þeirri sem hér fer fram. Það held ég að hljóti að vera (Forseti hringir.) lykilatriði, virðulegi forseti.