135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:35]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði ekki í minni ræðu að fyrirtækin væru að skjóta undan 18%. Það er rétt að þingmaðurinn hafi það rétt eftir. Ég vísaði meðal annars í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem ég sagði að ég teldi fulla ástæðu til að taka mark á og fara yfir og skoða hvort þær tölur sem hann setti fram ættu við rök að styðjast og ég las upp úr umsögn Alþýðusambands Íslands sem fjallar um skattundanskot. Það var það sem ég gerði hvað þetta snertir þannig að mér finnst mjög mikilvægt að þingmaðurinn hafi þetta á hreinu. Þetta voru mín orð. Við höfum sagt og það kom meðal annars fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan að við höfum ekki sagt að það eigi ekki að vera einhvers konar frestun á skattgreiðslum eins og eru í dag á söluhagnaði eða á arðgreiðslum. Það er ekki endilega deila um það atriði. En það er deila um þær ákvarðanir sem verið er að fara hér með þessu frumvarpi og við höfum bent á tímasetningarnar, efnahagsástandið og þá tilraun sem verið er að gera til að ná þjóðarsátt og við teljum að þetta sé ekki gott innlegg í þá umræðu. (Gripið fram í.) Þess vegna hlýt ég að spyrja að því, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) var til dæmis farið yfir þetta frumvarp á samráðsfundinum í ráðherrabústaðnum? Fóru ráðherrar ríkisstjórnarinnar yfir það með fulltrúum Alþýðusambandsins og launþegahreyfingarinnar hvað ríkisstjórnin væri að gera? Það var sagt í þessari umræðu að þetta væri innlegg til að mæta ástandinu í efnahagsmálunum, að koma til móts við fyrirtækin í þessu efnahagsástandi. Var þetta rætt í ráðherrabústaðnum? Var hlustað á sjónarmið Alþýðusambandsins þar? Af hverju var það ekki gert eins og mér býður í grun að sé staðreyndin?

Ég bið menn um að taka þeirri gagnrýni sem við komum fram með af karlmennsku og reyna þá frekar að svara (Forseti hringir.) henni málefnalega heldur en vera með einhvern útúrsnúning eins og hér hefur borið á.