135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:38]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er því miður þannig að það hefur kannski ekki reynt mikið á það að tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í skattamálum hafi orðið að veruleika því að (ÁPÁ: Þess vegna getið þið sagt þetta.) það háttar þannig til að við höfum ekki verið í aðstöðu til þess í ríkisstjórn að koma þeim á framfæri.

Það að hér sé verið að flýja frá málflutningi er að sjálfsögðu tómt rugl. Það sem ég sagði var og ég stend við það, að verið er að flytja skattbyrðina til með þessu frumvarpi nema náttúrlega að það sé ásetningur hæstv. ríkisstjórnar að skera niður útgjöld á móti, að það sé meiningin að skera niður í ríkisútgjöldum á móti. Svo kann vel að vera. (ÁPÁ: Það sagði ég ekki.) Það er verið að (Gripið fram í.) flytja til skattbyrði. Það er verið að aflétta skattskyldu tiltekinna aðila og þessi hreyfing er að verða. Hv. þm. Árni Páll Árnason tók undir með mér áðan að skattbyrðin mundi aukast á almenningi (Forseti hringir.) og minnka á fyrirtækjum. Undir það tók hann og þótt hv. þm. Lúðvík Bergvinsson komi hér síðan og segi að það sé ekki rétt þá hefur það verið staðfest meðal annars af einum flokksbróður hv. þingmanns.