135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp, sem fjallar um breytingu á lögum um tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda, hefur verið rætt hér við 3. umr. Ég vil spyrjast fyrir um örfá atriði hvað varðar frumvarpið og ákvæði þess.

Frumvarpið miðar að því að fella niður skatta á arði af sölu hlutabréfa. Er þar enn verið að auka skattfríðindi þeirra sem hafa, margir hverjir, á undanförnum árum fengið mestar skattalækkanir í samfélaginu. Enn er verið að bæta í. Maður veltir fyrir sér forgangsröðinni í þeim efnum. Mér finnst það siðlaust, frú forseti, að réttlæta með lögum og gera löglegar gjörðir og athafnir skattaðila sem varða við lög, jaðra við að vera lögbrot. Til þess er gripið hér á Alþingi að gera gjörninga löglega sem eru brot á lögum, það er út af fyrir sig siðlaust, hvað þá með innheimtu skattanna að öðru leyti.

Ef ríkisstjórnin hefði viljað beita þessu gagnvart aðilum sem frekar ættu að njóta þessa, ef menn vilja hygla skattgreiðendum á annað borð svo nemur tugum milljörðum króna — ég nefni aðila sem eru nú að fá innheimtubréf til að endurgreiða ofgreiddar lífeyrisgreiðslur vegna mistaka eða vegna einhverra atriða.

Ég minntist á það í umræðum hér á Alþingi í gær að Héraðsdómur Reykjavíkur hefur með nýlegum dómi sínum fellt úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. nóvember 2007 um að krefja ellilífeyrisþega um greiðslu á rúmum 600 þús. kr. vegna ofgreiddra bóta fyrir árið 2003 og 2004. Um 82% lífeyrisþega fá athugasemdir og lífeyrir þeirra er endurreiknaður. Meginhluti þessa hóps fær bakkröfur vegna ofgreiðslu eða vegna mistaka í lífeyrisgreiðslum. Í þessu tilviki var talið að Tryggingastofnun ríkisins hefði ekki getað fært nægileg rök fyrir því og þess vegna voru þær felldar niður.

Ég þekki dæmi þess að ekkjur hafa verið krafðar um greiðslu á lífeyri sem maki þeirra fékk og voru síðan taldar ofgreiddar tveimur árum síðar, makinn hafði þá verið dáinn í eitt ár. Fjöldi lífeyrisþega fær slíkar bakkröfur um það sem kallaðar eru ofgreiddar lífeyrisgreiðslur. Deilt er um réttarstöðu slíkra lífeyrisgreiðslna. Er þetta ekki framfærslugrunnur? Er þetta ekki framfærslufé? Og hefur þetta ekki stöðu launa? Að mínu mati er það svo. Þetta er framfærslugrunnur þess fólks sem í hlut á og þess vegna hefur enginn rétt til að skerða hann með þessum hætti.

Margir fá skerðingar nokkrum árum seinna á lífeyri sínum vegna þess að þeir hafa selt einhverja eign, og ekki endilega hlutabréf. Fólk hefur kannski selt hlut í gamla bátnum sínum. Ég þekki bónda sem var hættur búskap. Hann var ekki með háar lífeyrisgreiðslur, en hann átti skektu og seldi hana. (Gripið fram í: Var kvóti?) Nei, bara skipið sjálft, gamla skektu sem hann seldi og fékk einhverjar krónur fyrir. Tveimur eða þremur árum seinna fékk hann bréf frá sýslumanni: Þar sem hann hefði selt skektuna á einhverjar milljón krónur verði hann að endurgreiða stóran hluta af lífeyri sínum. Það er þá tekið af lífeyrisgreiðslum næsta árs og hann efast um að hann muni lifa svo lengi að geta greitt þetta upp. Þessi maður var ekki af ráðnum hug í vanskilum, alls ekki. Væri ekki nær að líta til þessa fólks, til ellilífeyrisþega, úr því að menn vilja fara út í það að gefa upp hugsanlegar áfallnar skattgreiðslur eða endurgreiðslur? Í frumvarpinu er verið að gefa eftir arðgreiðslur af skatti á arði af sölu hlutabréfa, sá hópur er tekinn út.

Ég hefði viljað sjá, úr því þetta er nú hluti af kjarasamningi, og átti að verða til þess að styrkja stöðu fyrirtækjanna til að þau geti greitt hærri laun — þannig var það kynnt í vetur, það koma fram. Ég hefði viljað taka þennan hóp — ef menn eru að fara út í tilfæringar af þessu tagi á annað borð — ellilífeyrisþega, sem fá bréf, oft með því orðalagi að fólk er fyrir fram stimplað sem óbótamenn, um að greiða til baka lífeyrisbætur. Þetta er líka með tilsvarandi hætti reiknuð skuld sem ríkið er þarna að krefjast. Ég vil spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal hvort þessi hópur, sem fær bréf um að skila til baka, að því er talið er, ofgreiddum lífeyri, hafi aðra stöðu en þeir sem fá arð af hlutabréfum. Úr því menn eru að fara út í svona fimleika, af hverju telst það ekki meira réttlætismál að taka á slíkum málum?

Fyrr í dag var til meðferðar frumvarp til laga til breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög þar sem verið var að rýmka það sem skilgreina mætti sem greiðslur inn í hlutafélög. Þetta var frumvarp til laga um breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 2 frá 1995. Með frumvarpinu voru lagðar til breytingar á lögunum hvað varðar greiðslu á hlutafé í öðru en reiðufé við stofnun eða hlutafjárhækkun. Í umræðum, þegar við vorum með þetta í nefnd, kom m.a. fram að þarna mætti setja inn sem hlutafé hross, að nota mætti Gránu eða Grána sem greiðslu inn í hlutafélög. Þá spyr ég: Þegar verður nú farið að selja Grána aftur og arður verður af honum verður hann þá skattfrjáls? Verða aðrar eignir sem ganga inn sem jafngildi hlutafjár inn í hlutafélög skattfrjálsar? (Gripið fram í: Já.) Já. Gildir þetta þá bara um peninga sem eru greiddir inn í hlutafélögin eða gildir þetta um önnur verðmæti sem tekin eru sem jafngild inn í hlutafélögin? Við vorum hér að afgreiða — það var verið að rýmka reglur. Það má nota ýmiss konar verðbréf, það má nota peningamarkaðsskjöl og það má nota hluti sem greiðslu upp í hlutafélögin. Ef þetta verður nú selt til baka aftur, ef Gráni verður seldur aftur á hærra verði, er sá arður skattfrjáls? Gráni var notaður til greiðslu á hlutafé, svo var hann seldur aftur, er þá arðurinn skattfrjáls samkvæmt þessum lögum? Ég bara spyr. Ég skil það svo að ekki sé gerður greinarmunur þarna á. Mér þætti a.m.k. fróðlegt að heyra frá hv. þm. Pétri H. Blöndal hvort frumvarpið, sem hér er verið að fjalla um, nái eingöngu til hlutabréfa eða til annarra greiðslna sem notaðar eru sem jafngildi peninga sem greiðsla fyrir hlutabréf.

Ég vildi koma þessu á framfæri, frú forseti. Mér finnst með endemum að í þessari umræðu um kjaramál, þar sem ég hélt að allir ætluðu að sameinast um að vernda og berjast fyrir kjörum þeirra sem hafa lægstu launin og að allt fjármagn sem væri til yrði nýtt til þess, númer eitt — ég hefði viljað sjá frumvarp í þá veruna, þar sem lækkaðir hefðu verið skattar á lágtekjufólki eða að skattleysismörkin yrðu hækkuð úr því að ríkissjóður telur sig hafa efni á því að fórna þarna nokkrum tugum milljarða sem þetta frumvarp felur í sér. Nei, þá er þetta forgangshópurinn. Þá er þetta forgangsröðun hjá ríkisstjórninni, á sama hátt og skattalækkanirnar á undanförnum árum hafa fyrst og fremst verið fyrir hátekjufólk. Skattar á lægri tekjum hafa hækkað hlutfallslega og þetta er allt á sömu bókina lært: Úr því að ríkissjóður telur sig hafa efni á að fórna tugum milljarða króna þá skulu þeir renna til skattalækkana á arði af hlutabréfum og öðru slíku sem almenningur er yfirleitt ekki með.

Alþýðusambandið er ekki í vafa. Fulltrúar almenns launafólks fordæma frumvarpið og telja að verið sé að ganga fram með þveröfugum hætti. Það er stórfurðulegt að ríkisstjórn, sem samanstendur af Sjálfstæðisflokknum — okkur kemur það ekki á óvart, Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf varið þá sem fara með fjármagnið á hverjum tíma, hátekjufólkið, fyrirtækin og það sem tengist fjármagninu. Það kemur manni hins vegar á óvart að þetta skuli vera eitt af meginmálum Samfylkingarinnar í umræðum um jafnrétti, jöfnuð og kjaramál ekki síst á þessum tímum. Að Samfylkingin skuli vaða gagnrýnislaust inn í stefnu Sjálfstæðisflokksins, án nokkurrar viðspyrnu — og skattalækkanirnar skila sér fyrst og fremst til fjármagnseigenda eins og áður var að skattalækkanirnar skiluðu sér til þeirra sem höfðu hæstu launin. Þetta er sama stefnan og undirstrikar að Samfylkingin virðist ekki leggja neitt af fyrri baráttumálum sínum hvað varðar jöfnuði inn í ríkisstjórnina heldur liggur marflöt fyrir Sjálfstæðisflokknum. Það má sjá í frumvarpinu.