135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[17:19]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið rætt um kosti þess og galla að gera söluhagnað af hlutabréfum skattfrjálsan og hvort það væri skynsamleg leið til að hindra flutning fjármagns úr landi og laða jafnframt fyrirtæki og fjármagn til landsins. Þetta var allt rætt í nefndinni. Einnig voru ræddar þær breytingar sem meiri hluti efnahags- og skattanefndar lagði til við 2. umr. Í því tilefni bárust viðbótarumsagnir frá ríkisskattstjóra og Alþýðusambandi Íslands og það eru kannski þær umsagnir sem ég vil ræða aðeins.

Alþýðusamband Íslands leggst gegn frumvarpinu og telur brýnna að reistar verði skorður við því að eigendur fjármagns komist hjá eðlilegri skattlagningu með flutningi þess úr landi. Sambandið gagnrýnir enn fremur tímasetningu á framlagningu frumvarpsins í ljósi núverandi aðstæðna í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Nú stendur í viðbótarumsögninni frá Alþýðusambandinu að ASÍ leggist gegn þeirri breytingu sem gerð er á 2. gr. frumvarpsins að opna fyrir það að kostnaður við öflun tekna sem undanþegnar eru skattskyldu geti verið dregnar frá öðrum tekjum. Þessi breyting þýðir með öðrum orðum að kostnaður sem fellur til við að afla tekna sem undanþegnar eru skattskyldu geti komið til frádráttar öðrum tekjum og lækkað þar með aðrar skattgreiðslur viðkomandi. Ætla má að þetta sé gert til einföldunar þar sem upphaflegt ákvæði bauð upp á mjög flókna skattframkvæmd. ASÍ varar eindregið við þessari breytingu og því fordæmi sem hún skapar. Ef sú leið sem lögð er til í upphaflegu frumvarpi er ekki talin framkvæmanleg eru það enn frekari rök gegn því að umræddur hagnaður sé undanþeginn skattlagningu.

Ég vil líka gera að umræðuefni umsögn embættis ríkisskattstjóra þar sem talað er um „stílbrot“ gagnvart meginreglu skattalaga. Minni hluti nefndarinnar vekur einnig athygli á sjónarmiðum sem fram komu hjá Eyþingi og fleirum varðandi mikilvægi þess að taka tillit til byggðasjónarmiða við verkaskiptingu innan skattkerfisins.

Mig langar aðeins að reifa í stuttu máli úr minnisblaði frá ríkisskattstjóra, dagsettu 18. apríl 2008. Þar segir, með leyfi forseta:

„Breytingin frá gildandi lögum felst í því að öll sala lögaðila á hlutabréfum verður gerð skattfrjáls (hagnaður frádráttarbær) og skiptir ekki máli hvort um er að ræða viðskipti með fjárfestingarhlutabréf sem í dag má fresta eða veltuhlutabréf, þ.e. sala hlutabréfa sem keypt eru með endursölu í huga og hagnaður er skattskyldur í dag. Félag sem er með hlutabréfaviðskipi í umboðssölu, án þess að teljast kaupandi eða seljandi, en tekur þóknun fyrir væri aftur á móti skattskylt af þóknuninni.

Þessi breytingartillaga að gera tiltekna starfsemi skattfrjálsa er því stílbrot gagnvart þeirri meginreglu 21. gr. að falli sala undir atvinnurekstur skattaðila eða hafi eigna verið aflað í þeim tilgangi að selja þær aftur með hagnaði teljist hagnaður af sölu þeirra ávallt að fullu til tekna á söluári.“

Litlu neðar segir ríkisskattstjóri, með leyfi forseta:

„Jafnframt má halda því fram að það sé stílbrot að annars vegar sé kostnaður við öflun tekna frádráttarbær frá tekjum og hins vegar að hinar sömu tekjur séu frádráttarbærar að öllu leyti óháð kostnaði, sem myndar þá tap, þrátt fyrir tilraunir við gerð frumvarpsins til að komast hjá slíkum þversögnum.“

Þessi tvö álit finnst mér mjög sannfærandi og ég held að það sé ráð að fresta afgreiðslu þessa frumvarps. Ég tek undir með stjórnarandstöðuflokkum sem hafa mælt fyrir um það. Mér finnst ekki tímabært að þetta komi fram núna. Það eru einfaldlega of sterk rök á móti því að keyra þetta í gegn. Svo veltir maður líka fyrir sér að bílstjórar þeyttu flautur sínar fyrir utan Alþingishúsið í dag og af hverju ekki megi fella niður olíugjaldið tímabundið eða lækka það til að koma til móts við þá hækkun á olíuverði sem hefur átt sér stað að undanförnu og er að sliga bæði heimili og fyrirtæki.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en ítreka að við framsóknarmenn teljum að fresta eigi afgreiðslu þessa frumvarps og vinna það betur og í samráði við þá sem hafa gert hér mjög skýrar og greinargóðar athugasemdir.