135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[17:30]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tek undir mál um fundarstjórn forseta vegna þess að komið hefur fram beiðni um að formaður fjárlaganefndar komi hingað áður en umræðu lýkur. Það eru grundvallaratriði í þessu frumvarpi sem lúta að fjárlagagerðinni og stöðu fjárlaga í ár þar sem verið er að afnema tekjustofn og tekjur sem hefur verið gert ráð fyrir í samþykktum fjárlögum ársins. Hér er líka verið að afnema tekjur, eignir sem hefðu átt að vera til ráðstöfunar, um er að ræða uppsafnaðan ógreiddan skatt sem er hluti af ráðstöfunarfé ríkissjóðs innan fjárlagaársins.

Ég vil því ítreka það hér að þessu máli ljúki ekki (Forseti hringir.) fyrr en formaður fjárlaganefndar hefur komið (Forseti hringir.) og bæði gert grein fyrir því hvaða áhrif þetta hafi á fjárlög ríkisins og eins þeim fyrirvara sem formaður fjárlaganefndar gerir við nefndarálitið sem (Forseti hringir.) þingheimur á rétt á að fá að vita.