135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[17:37]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum vegna þess að hér virðist ekki eiga að taka mark á óskum stjórnarandstöðunnar um að þessari umræðu verði frestað þar til formaður fjárlaganefndar þingsins, sem jafnframt á sæti í efnahags- og skattanefnd, komi til þings og geri grein fyrir því á hvaða forsendum hann reisi sinn fyrirvara gagnvart þessu frumvarpi.

Ég minni á að við erum að fjalla um frumvarp sem verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur óskað eftir að verði ekki samþykkt frá þinginu. Ég spyr: Ætlar Samfylkingin, ætlar jafnaðarmannaflokkur Íslands, sem gumar af því að hafa tengsl við og vilja hlusta á þau sjónarmið sem koma frá verkalýðshreyfingunni, að hunsa þessar óskir? (Forseti hringir.) Ég ítreka að það sé eðlilegt (Forseti hringir.) núna í það minnsta að gert verði hlé á þessum þingfundi og við komum saman, fulltrúar þingflokkanna, (Forseti hringir.) til að ræða um framhaldið.