135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[19:32]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég frétti að menn hefðu viljað hafa mig með í þessari umræðu. Mér þykir leitt að hafa ekki komist fyrr og bið alla afsökunar á því að hafa bókað mig á annan fund og í önnur verkefni, en sem betur fer náðist þetta allt heim og saman.

Ástæðan fyrir því að hv. þingmenn, sem tekið hafa þátt í umræðum í dag, vildu fá mig til umræðna hér var fyrirvari minn í efnahags- og skattanefndinni við frumvarpið. Ég lýsti því yfir í nefndinni, við formann nefndarinnar, hv. þm. Pétur Blöndal, og aðra sem þar voru — og átti viðræður um það við hv. þingmenn Kristin H. Gunnarsson, Ögmund Jónasson o.fl. — að þrátt fyrir að frumvarpið sé í sjálfu sér athyglisvert, og ég hafi ekki neitt á móti því, snýst fyrirvari minn um þá skattfrestun sem hefur verið viðhöfð. Má kannski segja sem svo að þau lög sem verið er að vinna eftir í dag séu gölluð að því leyti til að það hefur ekki gengið eftir sem lagt var upp með á sínum tíma, að mínu mati. Auk þess hefur það umhverfi sem lögaðilar og fyrirtæki búa við í dag breyst á umliðnum árum. Fyrirtæki hafa í miklum mæli nýtt sér umrædda skattfrestun sem með þessum lögum er verið að fella niður og þar af leiðandi búa til nýtt umhverfi fyrir umrædda lögaðila.

Fyrirvari minn, eins og fram hefur komið bæði í nefndinni og í samtölum við hv. þingmenn utan þingsalar, snýst um það að mér þótti eðlilegt að skoða enn frekar þá skattfrestun sem er núna í skattkerfinu og velta því fyrir mér hvort það yrði tekið upp með öðrum hætti. Þá má kannski segja sem svo að um sé að ræða tæknilega skoðun á slíku eða skoðun á verklagi þrátt fyrir að það sé mín tiltrú, eins og fjölmargra annarra þingmanna og þeirra sem hafa komið að málum, að umrædd skattfrestun verði út í hið endanlega og þeir skattar sem menn hugsanlega hefðu getað búist við ef lögin hefðu verið með öðrum hætti muni aldrei verða að veruleika. Því má segja sem svo að ég hafi lýst því yfir í nefndinni að ég hafi verið fylgjandi frumvarpinu en þó með þeim fyrirvara að ég hefði viljað skoða þetta mál enn frekar hvað varðar þennan litla hlut sem tengist þá hinni afturvirku skattbreytingu.

Nú kann einhver að velta því fyrir sér, virðulegur forseti, hvort ég sé hér að rýna í tekjustofna ríkisins og þá tengt fjárlögunum. Nú er það einu sinni svo að ég sit bæði í fjárlaganefnd og í efnahags- og skattanefnd og hef því nokkuð góða yfirsýn yfir það sem er að gerast á báðum stöðum, bæði tekjuhliðina og gjaldahliðina. Það hefur kannski ekki verið þannig á umliðnum árum að hv. þingmenn hafi setið í þessum báðum nefndum samhliða. En mér hefur alla vega þótt það vera mikilvægt, og ekki síður í störfum mínum í fjárlaganefnd, að geta séð hvernig verið er að fara með tekjuhlið ríkisreikningsins og tekjuhlið fjárlaganna með því að skoða þær breytingar sem hafa farið fram í efnahags- og skattanefnd.

Ég taldi þar af leiðandi í þessu tilfelli að menn hefðu átt að gefa sér örlítið meiri tíma þrátt fyrir að það sé alveg ljóst, miðað við þær forsendur og það upplegg sem við höfum varðandi fjárlögin, að ekki er verið að fella niður neinar tekjur sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs. Fjárlög þessa árs byggjast ekki á tekjustreymi gagnvart þessum þáttum enda er það svo, eins og væntanlega hefur komið hér fram í umræðunni í dag, að fyrirtækin og lögaðilar hafa nýtt sér umrædda skattfrestun í hvívetna. Það kemur einnig fram í fylgiskjali með frumvarpinu að fjárlagaskrifstofan metur það sem svo að frumvarpið leiði ekki til teljandi útgjalda fyrir ríkissjóð. Ég tel að fjárlagaskrifstofan hefði komið því á framfæri við yfirlestur á frumvarpinu ef hún hefði talið að um verulega tekjurýrnun væri að ræða gagnvart ríkissjóði.

Með öðrum orðum má segja, virðulegur forseti, að fyrirvari minn sé fyrst og fremst tæknilegs eðlis og byggist á því að ég hefði viljað endurrýna í verklag og horfa til þeirra sjónarmiða sem komu fram í umræðunni, bæði frá þeim gestum sem komu á fund nefndarinnar og einnig í þeim umsögnum sem voru lagðar fram. Að öðru leyti tel ég að allt annað í umræddu frumvarpi, eins og hér hefur verið lýst, sé jákvætt og eigi að fá hljómgrunn í þinginu, sérstaklega með hliðsjón af breytingum, eins og ég kom að áðan, virðulegur forseti, á alþjóðlegum vettvangi og breytingum á mörkuðum á Íslandi, á umsvifum Kauphallarinnar og um leið má kannski segja í tengslum við það efnahagsumhverfi sem við búum við og höfum búið til.

Ég geri ráð fyrir því að þetta sé það sem hv. þingmenn voru að bíða eftir og ítreka að ég hafði átt orðastað við formann efnahags- og skattanefndar og þingmenn stjórnarandstöðunnar um þetta í efnahags- og skattanefnd. Hinn tæknilegi fyrirvari minn lá því alveg ljós fyrir. En ef ég hefði vitað af því að menn vildu hafa mig hér í umræðunni í dag hefði ég auðvitað gert ráðstafanir til þess að geta verið hér með hv. þingmönnum og tekið ríkan þátt í þessari umræðu.