135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[19:52]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að fara að lengja þessa umræðu en vil þó segja að við megum ekki rugla saman skattstofni og sköttum annars vegar og hins vegar milljörðum og milljónum.

Ég skildi það sem svo að hv. þm. Jón Bjarnason væri að segja að við værum með skattstofn upp á 400–500 milljarða í umræddri skattfrestun. Það hefur komið fram í umræðunni þannig að við erum ekki að þurrka hér út 400–500 milljarða í skatta sem mundu falla inn í ríkissjóð enda eru nú fjárlögin eins og við þekkjum þau í ár upp á 464 milljarða þannig að það er nú ólíku saman að jafna.

Hins vegar er það svo að ég hef skoðað umsagnir bæði frá ASÍ og frá ríkisskattstjóra og við höfum fengið þessa gesti á fund nefndarinnar, efnahags- og skattanefndar. Ég vék að því hér í andsvari mínu við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að það hefði einmitt vakið mig til umhugsunar og þar af leiðandi hefði ég sett fram umræddan fyrirvara.

Fyrirvari minn er nokkuð skýr. Þegar ég segi að umræddir skattar af skattstofni, 400–500 milljarðar, muni líklegast ekki skila sér þá einfaldlega byggi ég á því sem hefur verið að gerast á umliðnum árum varðandi þessa skattfrestun sem ég tel kost að sé nú tekin í burtu fyrst verið er að taka til í lögunum. En ég hefði hins vegar viljað skoða lengur það sem gerst hefur á umliðnum árum. Þess vegna kom þessi fyrirvari fram.