135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[19:58]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það var mjög athyglisvert að heyra ræðu hv. þm. Gunnars Svavarssonar, formanns fjárlaganefndar og talsmanns Samfylkingarinnar í fjármálum ríkisins. Ég verð að segja þingmanninum til hróss að það er þó virðingarverð sú viðleitni sem fram kemur í máli þingmannsins að hann skrifar undir nefndarálitið með fyrirvara. Það er alltaf gefið fyrir viðleitni. (Gripið fram í.) Ég held að hv. þingmaður eigi líka að fá að njóta þess.

Hins vegar sakna ég þess að myndugleiki talsmanns Samfylkingarinnar í fjármálum skuli ekki vera meiri. Er þetta forgangsmál Samfylkingarinnar í skattamálum í því umróti sem við stöndum nú frammi fyrir í efnahagsmálum, í kjaramálum, þegar hrópað er að beita þurfi almenning 25% kjaraskerðingu til þess að ná verðbólgunni niður? Og hvar kemur það harðast niður? Jú, einmitt á tekjulægsta fólkinu að sjálfsögðu sem hefur minnst úr að moða. Það hefur lægstu launin og þess vegna verður hver skerðing miklu alvarlegri.

Ég minnist loforða Samfylkingarinnar frá því fyrir kosningar um hækkun á lífeyri til elli- og örorkulífeyrisþega. Mér telst til — og hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar Gunnar Svavarsson getur þá leiðrétt mig — að það vanti 3,6 milljarða upp á að staðið sé við þau loforð sem standa beint upp á ríkisstjórnina að efna. Þar á ég við að elli- og örorkulífeyrisþegar fái tilsvarandi hækkun á grunnlífeyri sínum eins og samið var um í síðustu kjarasamningum við aðila Alþýðusambands Íslands. Þá var samið um hækkun á lægstu launum um 18 þús. kr. á mánuði en hækkun til elli- og örorkulífeyrisþega var aðeins um átta, níu þús. á mánuði.

Ég hefði frekar viljað byrja á þessari upphæð, að ekki sé minnst á skattleysismörkin sem ýmsir, einkum Samfylkingin, lofuðu svo hátíðlega að mundu hækka fyrir síðustu kosningar. Hæsta boðið voru 150 þús. kr. hjá frambjóðendum Samfylkingarinnar sem nú sitja á þingi. Ég hefði talið að það væri í samræmi við jafnaðarstefnuna að fyrst yrði horft til þessara þátta áður en menn færu að skera niður uppsafnaða og ógreidda skatta af fyrirtækjum.

Ég velti því fyrir mér hvort formaður fjárlaganefndar geti kannski bent á fleiri hópa og aðra hópa sem sanngjarnara væri að fengju slíka niðurfellingu, bara svona með einu pennastriki. Það er ekkert víst að allir geti endurgreitt útistandandi skuldir, t.d. standa margir íbúðareigendur frammi fyrir miklum vanda vegna verðbólgu og hækkunar á lánum sínum. Væri ekki nær að koma til móts við þá með einum eða öðrum hætti en þessa aðila?

Hér eru að auki umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands sem m.a. Samfylkingin hefur talið sig vera að vinna í takt við í ýmsum tilvikum og mætti gera það í fleirum líka þar sem brennur á eins og í þessu. Alþýðusamband Íslands leggst alfarið gegn þessu og telur þetta skapa mjög slæmt fordæmi og að skilaboðin til almennings, til launþega séu þau verstu sem hægt er að hugsa sér. (Forseti hringir.) Ég tek því undir þá kröfu að þessu máli verði frestað til haustsins. (Forseti hringir.) Það er ekkert sem liggur á, menn tapa ekki neinum tekjum. (Forseti hringir.) Ég skora á hæstv. forseta að beita sér fyrir því að málinu (Forseti hringir.) verði frestað til haustsins, frú forseti.