135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[20:08]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kom að því hér áðan að það væru miklar líkur á því að umræddir fjármunir sem eru í skattfrestun mundu ekki skila sér í ríkissjóð. Jafnmiklar líkur eru taldar á því að sú breyting sem er verið að gera muni hafa þau áhrif að jafnvel muni skattar aukast í tengslum við umrædda breytingu með hliðsjón af því að efnahagur fyrirtækjanna breytist og umhverfi þeirra verður, má segja, samanburðarhæfara í alþjóðlegu tilliti.

Ég hafna því hins vegar að verið sé að keyra þetta mál í gegn með ofurhraða. Þetta mál kemur eðlilega inn og fær eðlilegan tíma í efnahags- og skattanefndinni, fær mikla umræðu þar og fjölmargir gestir koma og fjalla um málið. Þó að einstaka þingmenn hafi sérstöðu í málinu, hvort sem er í þingflokki Vinstri grænna eða annarra, þá er það einu sinni þannig að í þessu þingræði þurfa mál eins og þetta að fá umræðu eins og hefur verið hér í dag og menn lýsa yfir sínum skoðunum. Síðan finnst mér eðlilegt með þetta mál eins og fjölmörg önnur — við höfum verið með fjölmörg mál í efnahags- og skattanefndinni, meðal annars þingmannamál — að það hefði mátt vera komið í þingsali til 2. eða 3. umr. Það er mín skoðun að það eigi alla jafna að vera með það öfluga starfsemi á þinginu að sem flest mál komist í 2. og 3. umr., ekki einungis stjórnarfrumvörp heldur líka þingmannamál.