135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[20:34]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrirtæki geta frestað því að skattleggja söluhagnað í tvö ár. Allan þann tíma geta þau endurfjárfest hlutinn og þá hverfur söluhagnaður. (Gripið fram í: Það er ósatt.) Jú, hann fer inn í nýju kaupin, (Gripið fram í.) það stendur í lögunum. Hann fer inn í nýju kaupin, lækkar verðið á nýju kaupunum, þannig að ef menn selja það aftur myndast meiri hagnaður en söluhagnaðurinn hverfur úr bókum félagsins, það gerist, og þessir 60 milljarðar verða allir endurfjárfestir, menn geta alveg treyst því. Þeir koma ekki sem skatttekjur inn í ríkissjóð, aldrei, ekki nema viðkomandi forstjóri standi sig illa. Þessir 60 milljarðar sem eru gjaldfallnir, sem hafa reyndar lækkað mjög mikið á árinu 2007 og lækka enn meira á árinu 2008, munu aldrei koma inn í ríkissjóð, og þetta er það sem nefndin sá.

Varðandi það að menn borgi þá skatta sem þeim ber, það er í fyrsta lagi deiluatriði og í öðru lagi nefndi hv. þingmaður einmitt það sem menn vilja forðast og það er að enn meiri peningar fari til Hollands. Ef menn fara að beita mjög ströngum reglum hér á íslensk fyrirtæki til þess að ná í skattinn sjáum við hvorki skatt né fyrirtæki. Það getur vel verið að hv. þingmaður vilji að allir séu jafnfátækir í landinu en það vil ég ekki. Ég vil halda fjármagninu á Íslandi, (Gripið fram í.) ég vil helst fá erlend fyrirtæki inn í landið — ASÍ kvartar undan því að ekki sé nægilega mikil erlend fjárfesting hér á landi. Ég vil sjá það aukast, ég vil búa fyrirtækjum svo gott umhverfi að erlend fyrirtæki komi til Íslands og íslensk fyrirtæki flýi ekki land eins og mér sýnist að hv. þingmaður vilji gjarnan sjá.