135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um eftirlaun.

[10:34]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Haustið 2003 voru samþykkt lög um eftirlaun þingmanna, ráðherra og embættismanna á Alþingi. Ég held að það deili enginn um að þessi lög voru sett í óþökk þjóðarinnar. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga komu eftirlaunalögin svonefndu til umfjöllunar og ég minnist mjög eindreginna yfirlýsinga formanns Samfylkingarinnar, núverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, og í kjölfarið mikillar umfjöllunar í fjölmiðlum um frumvarpið og var svo að skilja að Samfylkingin mundi beita sér fyrir afnámi laganna. Ég fagnaði því mjög þegar lagt var fram á þingi frumvarp þessa efnis. Þar var 1. flutningsmaður hv. varaþingmaður Valgerður Bjarnadóttir en þarna var einnig að finna aðra þingmenn Samfylkingarinnar, þar á meðal formann fjárlaganefndar Alþingis.

Nú hefur þetta mál verið vakið upp að nýju af hálfu formanns Samfylkingarinnar og velkjast menn í vafa um hver raunveruleg afstaða flokksins er í þessu máli. Mun Samfylkingin styðja frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar sem kveður á um afnám laganna eins og kjósendum var gefið í skyn að Samfylkingin mundi beita sér fyrir í aðdraganda síðustu alþingiskosninga? Við þurfum að fá mjög afdráttarlaus og skýr svör af hálfu formanns Samfylkingarinnar, núverandi utanríkisráðherra.