135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um eftirlaun.

[10:39]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er einhver dapurlegasta ræða sem ég hef hlustað á í Alþingi og hlýtur að vera dapurleg ræða fyrir samfylkingarfólk og fyrir kjósendur þessa flokks sem stóðu í þeirri trú að Samfylkingin mundi af heilum hug beita sér fyrir afnámi hinna umdeildu og illræmdu eftirlaunalaga. Það var kjósendum gefið til kynna í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.

Núna er verið að drepa þessu máli á dreif. Nú er talað um að hreyfa málinu. Frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur og hv. þm. Ellerts B. Schrams og fleiri þingmanna Samfylkingarinnar kveður á um afnám þessara laga. Það er hins vegar ekki hreyft við þeim réttindum sem þegar hafa skapast, það er rétt. En það er gerð tillaga um að þingmenn, embættismenn og ráðherrar sem ávinna sér 6% lífeyrisréttindi á ári hverju á móti innan við 2% sem (Forseti hringir.) almennt gerist og 3% sem þingmenn ávinna sér, það er ekki hreyft við þeim, það er ekki hreyft við sérréttindum þeirra sem sitja hér á ráðherrabekknum, (Forseti hringir.) og nú er verið að reyna að drepa þessu máli á dreif. Það liggur fyrir þinginu frumvarp og við krefjumst þess að það komi (Forseti hringir.) til atkvæðagreiðslu í þinginu. Annað er í hæsta máta ólýðræðislegt.