135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

umræða um Evrópumál.

[10:44]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að koma í ræðustólinn en hv. þingmanni láðist að spyrja mig einhverra spurninga þannig að ég hef enga spurningu til að svara. (VS: Mig vantaði tíma.)Það er hins vegar rétt sem fram hefur komið að Sjálfstæðisflokkurinn er í fundaferð þessa vikuna. Það hafa verið kjördæmadagar eins og hv. þingmenn vita og við nýtum þá til að halda fundi og við höfum haldið marga ágæta og vel sótta fundi. Þar hefur að sjálfsögðu verið rætt um Evrópusambandið eins og gert hefur verið á fundum okkar frá því að elstu menn muna, vil ég segja, og þar eru kostir og gallar Evrópusambandsins ræddir eins og mér skilst að gert sé í öðrum flokkum. Það eru hins vegar ekki nein merki sem ég veit um innan flokksins um að það verði einhverjar breytingar á stefnu flokksins, alla vega ekki eins og staðan er í dag. Það getur auðvitað gerst með meiri umræðu og einhverju sem við vitum ekki að hafi gerst. Ég get ekkert sagt til um það.

Hvort það verður atkvæðagreiðsla hér á landi um aðild að Evrópusambandinu er líka algerlega óljóst en ég held að það sé alveg ljóst að það verður engin slík atkvæðagreiðsla á þessu kjörtímabili. Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri í forustu fyrir slíkri atkvæðagreiðslu þyrfti hann að hafa mótað sér nýja stefnu og aðra stefnu en hann hefur í dag og það þyrfti að liggja ljóst fyrir að flokkurinn ætlaði að leggja til að þjóðin gengi í Evrópusambandið. Þá stefnu hefur flokkurinn ekki markað sér og ég sé ekki (Forseti hringir.) fyrir mér að það gerist alveg á næstunni. Ég held því að umræðan, herra forseti, sé algerlega ótímabær af hálfu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur.