135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[11:28]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er verið að breyta skattalögum í takt við raunveruleikann. Það er þannig í dag að skattfrestunarheimildir leiða til þess að skattar eru ekki greiddir. Ekki verður því um neina breytingu að ræða hvað þetta varðar nema hvað efnahagsreikningur fyrirtækja endurspeglar raunveruleikann, ekkert annað. Það kemur kannski ekki á óvart að stjórnarandstaðan sé andvíg raunveruleikanum.

Í annan stað verður að segja, vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram, að markaðirnir hafa heldur betur endurmetið skattskuldbindingarnar sem hér um ræðir, ætli þær hafi ekki fallið um 60–70%. Það er athyglisvert í þessari umræðu hvernig stjórnarandstaðan hefur reynt að varpa ryki í augu almennings í þessu máli. Hér er einfaldlega verið að samræma lög raunveruleikanum og þannig eiga lög að vera, virðulegi forseti.