135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[12:03]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að það standist skoðun að hér sé um mikið frumvarp að ræða a.m.k. þegar talað er um efnislegar breytingar. Kannski hafa menn ekki tekið þá umræðu sem er nauðsynleg um heilbrigðisþjónustuna almennt og kannski hafa menn ekki áttað sig á því hvernig hún er uppbyggð núna og hvernig hún var uppbyggð eftir að lögin voru samþykkt. Ég skal ekki segja neitt um það. Þá er ég ekki að vísa í neina ákveðna einstaklinga en hins vegar er mjög gott fyrir okkur að taka þessa umræðu því að ég held að hún sé mjög upplýsandi í alla staði. Það er ágætt að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir tók einmitt þennan þátt um eftirlitið, því að ég held að við séum sammála um mikilvægi þess að skerpa á því, ég held að það sé mjög mikilvægt. Það sem verið er að leggja upp með hér, ekki það að menn geti ekki alveg gert það samkvæmt núgildandi lögum, er að reyna að vinna það eins praktískt og hægt er að auka gegnsæið í heilbrigðisþjónustunni og þá skiptir engu máli hver er veitandi þjónustunnar. Ég held að við séum sammála um að við viljum hafa gegnsæið eins mikið og mögulegt er og að þetta liggi allt saman hreint og klárt fyrir, þannig að þegar um er að ræða samninga um heilbrigðisþjónustu séu eins fáir núningspunktar og mögulegt er. Það er sú vegferð sem menn eru að leggja upp með og enn frekar en gert hefur verið áður. Þá kemur einmitt að þessum eftirlitsþáttum. Það liggur fyrir að Ríkisendurskoðun mun eðli málsins samkvæmt vera eftirlitsaðili yfir öllu. Síðan er landlæknir sérstakur faglegur eftirlitsaðili. Hins vegar er alveg ljóst að sá sem kaupir þjónustuna, og þannig hefur það verið, verður að hafa eitthvert eftirlit með því að hún sé veitt. Hér er verið að skerpa línurnar og sérstaklega með áherslu á eftirlitsþáttinn, sem ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir að koma inn á, sem er mjög mikilvægt að sé góður.