135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[12:30]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég mun fara yfir í ræðu minni hér á eftir þegar ég mun rekja aðdragandann að þessum hugmyndum þá kemur það einmitt fram að þessar hugmyndir hafa verið lengi á lofti og margar þjóðar hafa hrint þeim í framkvæmd. Það er þá kostur við það þó við tökum upp þessar hugmyndir svona seint því við getum lært af þeim. Það eru auðvitað misvísandi skoðanir á því og misvísandi rannsóknir um niðurstöðuna. En því getum við alla vega tekið mið af þeim og lært af þeim þegar við erum að byggja upp þessa hugmynd hér á landi.

Hv. þingmaður ræðir hérna um að bjóða út verkefni varðandi læknaritun og veita þjónustu inni á öldrunardeild Landspítala. Það er nú bara þannig að útboð varðandi læknaritara var þess eðlis að það var verið að fá fólk til þess að vinna verkefni sem ritarar höfðu ekki komist yfir. Það var engum sagt upp. Þarna var verið að færa út ákveðna þekkingu, meira að segja flytja störf út á land í hugmyndinni í framhaldinu til þess að bæta þessa þjónustu.

Varðandi öldrunardeildina á Landakoti þá var það þannig að það var ekki starfsfólk til staðar til þess að sinna öldruðum þannig að með opnun þeirrar deildar, 18 rúma deildar, var hægt að sinna 18–20 öldruðum til viðbótar sem annars hefðu verið heima. Þetta er nú ekki svart og hvítt eins og hv. þingmaður vill meina.

Varðandi vinnuferlið hjá okkur innan heilbrigðisnefndar þá er meginuppistaðan í því frumvarpi sem við erum með hér fyrir framan okkur annars vegar lög um almannatryggingar, sjúkratryggingakaflinn, og hins vegar lög um heilbrigðisþjónustu, VII. kafli þeirra. Það er meginuppstaðan og við höfum tekið þá umræðu. Síðan get ég upplýst það hér að ég hef þegar sent málið til umsagnar sem formaður nefndarinnar, fengið leiðbeiningar frá nefndasviðinu um fordæmi í þá veru (Forseti hringir.) þannig að umsagnir munu liggja fyrir á þriðjudaginn.