135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[12:40]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér þykja nokkuð miklar yfirlýsingar gefnar hér út af þessu máli. Hv. þm. Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar, hefur upplýst um að hún hafi fengið um það ráð frá sérfræðingum nefndasviðs að þessi framgangsmáti ætti sér fordæmi og væri þar af leiðandi ekki í ósamræmi við nokkrar reglur. Meðan það hefur ekki verið hrakið þá sé ég ekki um hvað þessi deila snýst.

Ef vilji stjórnarandstöðunnar stendur til þess, eins og hún lætur í orði, að þetta mál fái vandaða umfjöllun og upplýsta umræðu þá held ég að enginn geti sett sig á móti því að málið fari sem fyrst til umsagnaraðila, eins margra og kostur er. Það hefur nú verið gert. Því ættu hv. þingmenn að fagna og þá getum við haldið áfram að verja hér dýrmætum tíma okkar til þess að ræða efnisatriði þessa máls. Þau eru það sem skiptir máli. Engin ástæða er til þess að búa til stórmál út af því sem ekki verðskuldar það.