135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[12:41]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa því yfir að ég er mjög hissa á því sem á sér stað í þingsalnum núna. Við erum að tala hér um mál sem kemur inn allt of seint og það á að fara með það í gegnum þingið á miklum hraða. Við erum mjög ósátt við það. Og þá í 1. umr. hrekkur upp úr formanni heilbrigðisnefndar hv. þm. Ástu Möller, það bara hrekkur hérna upp úr hv. þingmanni að hún sjálf hafi sent málið til umsagnar. Maður er eiginlega orðlaus yfir þessu. (Gripið fram í.) Maður bara áttar sig ekkert á því hvað er að gerast með stjórn þingsins og hvernig komið er fram við þingræðið.

Hvað er hér á ferðinni? Það er verið að senda mál til umsagnar án þess að búið sé að fara í gegnum 1. umr., án þess að búið sé að kalla saman nefndina og við (Forseti hringir.) fréttum það af því það hrekkur upp úr hv. þingmanni. Ég tek undir með þingflokksformanni (Forseti hringir.) Vinstri grænna og fer fram á að þetta verði nú rætt meðal þingflokksformanna við forsetaembættið.(Forseti hringir.)