135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

staða tollgæslu- og lögreglumála á Suðurnesjum.

[13:45]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Í mínum huga hafa aldrei verið nein rök fyrir því að aðskilja lögreglu, tollgæslu og öryggisgæslu hjá lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum. Það eru engin rök fyrir fjárhagslegum ávinningi af því að brjóta þetta upp en það er augsýnilega ávinningur að því að hafa þetta samrekið, vera með sömu stjórnina yfir þessum þremur liðum, þ.e. tolli, lögreglu og öryggisgæslu. Þess vegna er fáránlegt að bara fyrir 17 mánuðum síðan þegar lögreglan hjá sýslumannsembættinu í Keflavík var sameinuð lögreglustjóraembættinu á Keflavíkurflugvelli voru það rök að það væri svo gott að vera með þetta samrekið, það væri mun ódýrara, skilvirkara og betra í alla staði. Þess vegna áttar maður sig ekki á hvað er verið að gera. Eru þetta einhver persónuleg átök á milli lögreglustjóra? Eru menn kannski í einhverri undarlegri glímu um áhrif og stærð embætta sem ekki kemur fram í umræðunni? Eru þetta átök á milli ríkislögreglustjóra og annarra? Af hverju er verið að búa til risabákn úr ríkislögreglustjóraembættinu í Reykjavík á kostnað allra embætta úti á landsbyggðinni? Af hverju eru menn að hugleiða að koma meiru undir ríkislögreglustjóra en verið hefur? Ég segi að það er röng aðferðafræði. Færum þetta frekar út í byggðirnar þar sem þetta á heima.