135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

staða tollgæslu- og lögreglumála á Suðurnesjum.

[13:47]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að vakið er máls á þessu stóra vandamáli varðandi löggæslu og eftirlit á Suðurnesjum og ég vil jafnframt mótmæla þeim orðum sem hér komu fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra að það hafi komið þeim algerlega í opna skjöldu að fjárveitingar til embættisins hafi ekki verið nægilegar. Það var algerlega ljóst við fjárlagaundirbúning á síðasta ári að gögn til að gera ábyrgar tillögur til fjárlaganefndar fyrir þetta embætti voru mjög brotakennd enda var verið að sameina embættin. Gögn lágu ekki fyrir fyrr en í rauninni eftir að tillögur okkar voru komnar fram. Það kom okkur sem erum í fjárlaganefnd og heimsóttum þetta embætti á liðnu hausti ekki í opna skjöldu að þetta embætti byggi við fjárþröng.

Ég kalla eftir svörum varðandi bréf, sem hæstv. dómsmálaráðherra vék að, frá lögreglustjóraembættinu frá 13. maí þar sem embættið hafði tekið undir að miðað væri við daginn 1. júlí 2008 varðandi aðskilnað rekstrarþátta embættisins. Minn skilningur er sá að embættið hafi í bréfinu aðeins tekið undir að gerður væri fjárhagslegur aðskilnaður innan embættisins en ekki að embættinu væri skipt upp og yfirstjórnin færð til þriggja þátta eins og ráðagerðin er. Ég tel í rauninni mjög bagalegt að nú þegar komið er vor og við þingmenn erum að fara heim sé það enn í lausu lofti hvernig löggæslu verður háttað. Ég kalla eftir ábyrgð ráðuneytisins í þeim efnum vegna þess að það er alveg ljóst að ef embættið á að fara að fjárlögum verður löggæsla algerlega óviðunandi á Suðurnesjum og sömuleiðis verður tolleftirlit og aðrir þættir sem þetta embætti hefur með að gera ekki með viðunandi hætti. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum í fjárlaganefnd hefur embættið ekki skýr svör um (Forseti hringir.) að leyst verði úr vanda þess við gerð fjáraukalaga.