135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

staða tollgæslu- og lögreglumála á Suðurnesjum.

[13:57]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Samrekstur lögreglu, tolls og öryggisgæslu hefur að því er virðist komið vel út og sátt hefur verið um fyrirkomulagið á Suðurnesjum. Eftir að hafa skoðað málið er það mat okkar að samvinna aðila sé til góðs og árangur starfa og afköst séu mikil. Við teljum að taka verði mark á þeim vilja starfsmanna að núverandi fyrirkomulag efli samstarfsanda og árangur. Eina yfirstjórn á Suðurnesjum á að styrkja en ekki veikja eins og nú virðist stefna í, hæstv. forseti.

Vonandi liggur niðurstaða Ríkisendurskoðunar fyrir í næstu viku áður en lengra er haldið í þessu máli. Ég tel það mikið vafamál, hæstv. forseti, að halda áfram að þróa það sem ég vil leyfa mér að kalla yfirfrakkastjórn ríkislögreglustjóra. Ég tel að það sé ekki rétt leið þó að það sé sú stefna sem ríkisstjórnin vill fara (Gripið fram í: Eins og Samfylkingin?) eins og málum er nú komið. Ég held að það væri mjög æskilegt að menn reyndu að vinna úr því skipulega sem komið hefur í ljós við þau störf sem unnin hafa verið á Suðurnesjum á undanförnum árum og efla þann samstarfsanda og samstarfsvilja sem er á milli þeirra starfsstétta sem um ræðir. Ég tel að það verk sé okkur til góðs og muni skila sér í framtíðinni í aukinni nýtingu á fjármunum þótt vissulega vanti enn upp á í þeim efnum.