135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

staða tollgæslu- og lögreglumála á Suðurnesjum.

[13:59]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Áðan talaði hæstv. dómsmálaráðherra og það er augljóst að það er ekkert svikk á hæstv. ráðherra. Hér er talað eins og málið fari í gegn á næstunni, það er talað um að hér verði gætt hagsmuna starfsmanna o.s.frv. þegar málið verður afgreitt bráðlega. Hæstv. ráðherra vék engum hlýjum orðum að þeim árangri sem starfsmennirnir hafa náð heldur talaði bara ísköldum orðum um að embættið væri með allt niður um sig fjárhagslega. Hins vegar er alveg ljóst og það var vitað að fjárveiting til embættisins var of lág, það var alveg vitað. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá 28. mars segir að þessar skipulagsbreytingar miði ekki að því og séu ekki settar fram í sparnaðarskyni þannig að umræða um fjárveitingar var mjög sérstök.

Hins vegar finnast mér langmerkilegust skilaboð Samfylkingarinnar eftir að hafa hlustað á þessa umræðu. Talsmaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, segir að það séu engin rök sem réttlæti breytingarnar sem ríkisstjórnin og hæstv. dómsmálaráðherra vilja gera. Talsmaður Samfylkingarinnar gefur dómsmálaráðherra á lúðurinn með stálkrepptum hnefanum og segir að það eigi að leggja niður ríkislögreglustjóraembættið í núverandi mynd. Þetta er engin smáyfirlýsing, virðulegi forseti. Ég held að maður geti notað júdómál til samlíkingar, þetta er bara „ippon“ hjá talsmanni Samfylkingarinnar. Fyrst ræðst hæstv. dómsmálaráðherra að embættinu á Suðurnesjum, síðan ræðst þingflokksformaður Samfylkingarinnar að ríkislögreglustjóraembættinu þannig að þetta boðar ekki gott, virðulegi forseti.