135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

staða tollgæslu- og lögreglumála á Suðurnesjum.

[14:01]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég get vel tekið undir það að það kom mér á óvart að menn væru að ræða um ríkislögreglustjóraembættið hér í þessum umræðum. Umræðurnar snerust alls ekki um það. Ef menn vilja taka sérstaka umræðu um ríkislögreglustjóraembættið þá finnst mér að þeir eigi að beita sér fyrir því á hinu háa Alþingi.

Það er alrangt að það hafi verið tekin verkefni frá Suðurnesjum og flutt til ríkislögreglustjóraembættisins. Það sem hefur verið gert er að sérsveit lögreglunnar hefur verið skipulögð undir ríkislögreglustjóraembættinu í góðri sátt við þá sem stóðu að þeim ákvörðunum á sínum tíma. Það er eina breytingin sem orðið hefur. (Gripið fram í.) Þetta er hreinn útúrsnúningur hjá hv. þingmönnum (Gripið fram í.) þegar þeir fara út í það að beina þessum umræðum að ríkislögreglustjóraembættinu.

Ég skorast ekki undan (Gripið fram í.) því að taka þær umræður á þinginu og fara ofan í það og greina það. Ef það er vandamálið í þessu efni að það þurfi að ræða ríkislögreglustjóraembættið þá er það algjört nýmæli fyrir mig í þessum umræðum um skipulagsbreytingar á Suðurnesjum, þ.e. ef þær eiga að snúast um ríkislögreglustjóraembættið. Ég hafði ekki heyrt það áður. Þessar ákvarðanir (Gripið fram í.) hafa verið teknar vegna þess meðal annars hvernig skilið var við þetta embætti af hv. fráfarandi utanríkisráðherra Valgerði Sverrisdóttur, (Gripið fram í.) hvernig staðið var að öllum fjárveitingum og öllum undirbúningi að því að embættið fluttist úr umsjá utanríkisráðuneytisins til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Allur grunnur að rekstri embættisins var í molum þegar við tókum við þessu embætti. Niðurstaða okkar og allra þeirra sérfræðinga sem hafa komið að þessum málum er sú að það sé skynsamlegt að gera þá aðgreiningu í starfi embættisins sem fellur að starfsskiptingu innan Stjórnarráðsins, það sé ekki haldið í gamla fyrirkomulagi sem var hjá utanríkisráðuneytinu þar sem þetta var ein samsuða og þróaðist þannig að enginn hafði í raun yfirsýn yfir það eins og kemur fram þegar embættið er ár eftir ár rekið með halla á fjárlögum.