135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar.

[14:08]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta mál hefur fengið alla þá afgreiðslu sem það þarf til þess að vera hér á dagskrá þannig að ég tek ekki undir óskir þeirra þingmanna sem hafa óskað eftir að það væri tekið af dagskrá. Málið er búið að liggja nógu lengi í þinginu til þess að það megi koma hér á dagskrá og auk þess var fallið frá fyrirvaranum 1. apríl, þ.e. það var samþykkt að þrátt fyrir að málið væri lagt fram eftir 1. apríl þá mætti ræða það í þinginu.

Ég tel fulla ástæðu til að ræða þetta mál. Það hefur komið fram hjá þingmönnum að sumir hafa efnislegar athugasemdir við frumvarpið. Þess vegna held ég að það sé mjög nauðsynlegt að þær efnislegu athugasemdir komi fram við 1. umr. og málið fari síðan sína eðlilegu leið í heilbrigðisnefnd og að þar verði málið (Forseti hringir.) síðan sent til umsagnar ef menn telja að þess sé þörf því það er auðvitað (Forseti hringir.) ákvörðun nefndarinnar að gera það á hverjum tíma.