135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar.

[14:10]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tel lágmark við þessar aðstæður að umrætt bréf hv. þm. Ástu Möller verði kallað til baka og það strax, að allir þeir sem hún sér valdi sem umsagnaraðila fái tilkynningu um að það hafi ekki verið þinglegt að þetta bréf fór, það verði kallað til baka og viðkomandi muni væntanlega eftir ákvörðun nefndarinnar fá annað bréf með beiðni um umsögn. Þetta er að mínu viti ekki neitt sem hv. heilbrigðisnefnd þarf að taka ákvörðun um. Þetta er það sem hv. þm. Ásta Möller á að sjá sóma sinn í að taka ákvörðun um og ganga í það strax.

Það er greinilegt, því miður, herra forseti, að þetta er mikil vanvirða við Alþingi, við þingsköpin og við heilbrigðisnefnd sem slíka. En þetta er líka mikil vanvirða, eins og ég nefndi í máli mínu áðan, við nefndarmenn í hv. heilbrigðisnefnd. Formaður sem þannig gengur fram ber ekki mikla virðingu fyrir samnefndarmönnum sínum. Ég verð að segja, herra forseti, að það er mjög erfitt fyrir almenna nefndarmenn (Forseti hringir.) í þeirri nefnd að bera virðingu fyrir formanni sem þannig fer fram.