135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar.

[14:14]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Möller mun hafa fært það hér fram í umræðunni sem rök fyrir flýtimeðferð málsins að hún væri búin að greiða fyrir því með því að senda málið út til umsagnar. Hv. þingmaður var bersýnilega að leggja það að jöfnu við það að málið færi með hefðbundnum hætti út til umsagnar þannig að málsvarnir sem hér eru síðan uppi hafðar eru nú fátæklegar.

Er það ekkert mál að skýr afdráttarlaus ákvæði þingskapalaga séu hunsuð? Það er ekkert yfir að fara í þessu máli, herra forseti, og það er undarlegt að forseti skyldi ekki koma þessu máli út úr heiminum með því að fela þingmanninum að leiðrétta mistök sín eða stendur ekki til að fara eftir 27. og 28. gr. þingskapalaga, herra forseti? Um hvað er verið að röfla hér? Það eru fortakslaus og skýr ákvæði í lögunum um það hvernig umboði er háttað í þessum tilvikum, hvenær nefnd fær forræði yfir máli. Þangað til hefur formaður þingnefndar sem og aðrir nefndarmenn nákvæmlega sömu stöðu og aðrir þingmenn gagnvart málinu og ekkert umboð til þess að láta sem hún sé í sérstöku hlutverki gagnvart því. (Forseti hringir.) Það er bara þannig. Og í reynd var máli enn á forræði framkvæmdarvaldsins þangað til Alþingi samþykkti (Forseti hringir.) að taka það fyrir með afbrigðum hérna áðan.