135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar.

[14:18]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Vald spillir. Við horfum upp á hv. þingmenn stjórnarliðsins sem geta í krafti mjög aukins meiri hluta í þingsal og nefndum troðið nánast hverju sem er ofan í kokið á minni hlutanum og grípa til vinnubragða sem eru algerlega óþekkt í þingsögunni fyrir. Þegar óskað er eftir því að prívatbréf hv. þm. Ástu Möller sé kallað til baka, nei, það er óþarfi og þá segir hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins: Skrifar þú aldrei bréf, Álfheiður? Þetta er virðingin fyrir þingsköpunum.

Svo kemur hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar glottandi og segir að engin réttarspjöll hafa verið unnin. Jú, hér hafa verið unnin réttarspjöll gagnvart þingsköpum Alþingis, gagnvart heilbrigðisnefnd sem sendir mál út til umsagnar, gagnvart nefndarmönnum í heilbrigðisnefnd sem gera tillögu um hvert mál fara til umsagnar. Ekki síst hafa verið framin réttarspjöll gagnvart þeim aðilum (Forseti hringir.) sem eiga að fá málið til umsagnar með því að þeir sitja ekki við sama borð og (Forseti hringir.) þeir munu væntanlega ekki fá sama frest til að skila inn umsögnum sínum ef bréfið verður ekki dregið til baka. (Forseti hringir.) Það er þess vegna sem ég krefst þess, herra forseti, að þetta prívatbréf (Forseti hringir.) verði dregið til baka og það verði aldrei lagt sem forsenda (Forseti hringir.) fyrir umsagnir og ákvörðun (Forseti hringir.) heilbrigðisnefndar.