135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar.

[14:23]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst stór orð notuð í þessari umræðu og ég held að það sé — (Gripið fram í: Hann er nú óvanur því.) hv. þingmaður er afar óvanur því. Það er dálítið gróft að fullyrða að þingsköp hafi verið brotin. Á sama tíma er fullyrt að málið sé ekki komið til meðferðar þingsins, þingskapareglurnar eiga þá væntanlega ekki við vegna þess að málið er ekki komið til meðferðar þingsins. Það verður að vera einhver „common sense“, svo að ég noti það orðalag, í þessu þó að menn hafi vissulega afstöðu til málsins. Ég get alveg unnt mönnum þess að hafa mismunandi afstöðu til málsins en mér finnst að menn eigi að spara stóru orðin og geyma fullyrðingar um brot á þingsköpum.

Að sjálfsögðu mun þetta mál fara að þingsköpum: 1. umræðu verður væntanlega lokið, þaðan fer það til nefndar, þaðan fer það til útsendingar og svo ræður nefndin því hvort málið komi inn aftur eða ekki þannig að engin þingsköp verða brotin. Hins vegar verður hv. þingmaður náttúrlega að útskýra það hvort hún vilji sem þingmaður senda þetta sérstaklega út eða ekki. En engin þingskapalög verða brotin, ekki er hægt að halda því fram.