135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[15:29]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að fara að leiðrétta enn eina ferðina hugtakið einkavæðing, og ég er ekki talsmaður einkavæðingarinnar innan heilbrigðisþjónustunnar, ég er hins vegar talsmaður þess að það sé aukið samstarf á milli einkaaðila og stjórnvalda um rekstur í heilbrigðisþjónustu. Á því er mikill munur og ég er talsmaður þess að ríkið og stjórnvöld verði áfram megingreiðendur fyrir heilbrigðisþjónustu hér eftir sem hingað til.

Varðandi þá spurningu sem til mín er beint um rannsókn um íslenska heilbrigðiskerfið eftir Rúnar Vilhjálmsson þá þekki ég þá skýrslu afar vel og veit hvað hún inniheldur. Það segir kannski meira en nokkuð annað um hvernig hefur tekist til hjá okkur með samvinnu við einkaaðila og sjálfseignarstofnanir varðandi rekstur að fólk gerir ekki greinarmun á því hvort um ríkisrekstur eða einkarekstur er að ræða vegna þess að þar er enginn munur á t.d. greiðsluþátttöku fólks. Fólk sem t.d. fer til heilsugæslustöðvanna í Salahverfi eða í Lágmúla borgar það sama og það borgar í heilsugæslustöðvum annars staðar, þ.e. þeim heilsugæslustöðvum sem reknar eru af ríkinu, en heilsugæslustöðvarnar í Lágmúla og Salahverfi eru, eins og hv. þingmaður veit, reknar af einkaaðilum. Almenningur gerir engan greinarmun á því hvort það er ríkið eða einkaaðilar eða sjálfseignarstofnun sem veita þjónustuna vegna þess að sama verð er greitt fyrir hana. Þegar ég las þetta gerði ég þær athugasemdir í mínum huga að það væri ekki hægt að draga þá ályktun að með þessu væri fólk að segja að það væri á móti því að einkaaðilar væru að reka heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins. Ég held einmitt að það hafi komið í ljós að t.d. einkaaðilar sem reka heilsugæslustöðina í Salahverfi standa sig mjög vel (Forseti hringir.) og fólk er mjög ánægt með þá þjónustu, ánægðara en með aðrar heilsugæslustöðvar.